Skilmálar (gilda til 31. maí 2017)

A. ALMENNT UM DEBETKORT

 1. Aðilar þessara skilmála eru korthafar, sem með umsókn sinni hefur samþykkt þá, viðkomandi greiðslumiðlunarfyrirtæki og Landsbankinn hf., sem gefið hefur út kortið til korthafa. Þegar korthafi og reikningshafi eru ekki sami aðili gilda reglur þessar og skilmálar einnig fyrir reikningshafa.

 2. Debetkort má nota á eftirfarandi hátt:
  • sem alþjóða greiðslukort til kaupa á vöru og þjónustu.
  • sem hraðbankakort til úttektar á reiðufé í hraðbanka.
  • Sem tékkaábyrgðarkort til framvísunar við greiðslu með tékka.
  • sem bankakort til úttektar eða greiðslu á banka/sparisjóði.
 3. 3.1. Kortin eru einkennd með nafni Landsbankans sem gefur þau út. Þau eru ýmist VISA ELECTRON/PLUS eða MAESTRO/Cirrus og eru eign bankans.

  3.2. Sýnishorn af rithönd korthafa verður mynduð inn á kortið og hefur hann einn heimild til að nota það, þar sem um það hefur verið samið og samkvæmt þessum skilmálum og öðrum reglum, sem um það gilda á hverjum tíma.

  3.3. Útgefandi kortsins getur stöðvað notkun þess og innkallað það án fyrirvara, komi til misnotkunar á því eða brota korthafa á reglum og skilmálum um kortið, að mati útgefanda.

  3.4. Kortið er einungis unnt að nota með lestri rafrænna upplýsinga af segulrönd þess eða af örgjörva. Þess vegna er óheimilt að gefa upp númer kortsins eða leyninúmer þess til greiðslu án rafrænnar notkunar þess. Kortið gildir ekki til greiðslu símleiðis eða bréflega.

 4. 4.1. Greiðslumiðlunarfyrirtækin Valitor hf. og Borgun hf., auk Reiknistofu bankanna, annast ýmsa þætti debetkortaþjónustu fyrir bankann, samkvæmt samningum þeirra á milli.

  4.2. Greiðslumiðlunarfyrirtækin kunna eftir atvikum að annast daglegt eftirlit með hvers konar misnotkun vegna notkunar greiðslukorta sem útgefin eru af bankanum. Í þessu skyni kann Landsbankinn að miðla upplýsingum um notkun korta til viðkomandi greiðslumiðlunarfyrirtækis. Upplýsingarnar eru eingöngu notaðar við eftirlit með misferli og áhættustýringu. Eftirlitið er framkvæmt af og á ábyrgð greiðslumiðlunarfyrirtækjanna.

 5. 5.1. Umsókn um kortið, ásamt mynd og rithandarsýnishorni væntanlegs korthafa, skal afhent bankanum. Áður ber umsækjanda að kynna sér vandlega þessar reglur og skilmála.

  5.2 Korthafi/reikningshafi getur sótt um aukakort á nafn handhafa prókúru reiknings síns, en ber þá fulla ábyrgð á notkun þess sem sínu eigin.

  5.3. Með undirritun umsóknar samþykkir korthafi öll ákvæði þessara reglna og skilmála um notkun kortsins svo og bókunaraðferðir bankans.

 6. 6.1. Kortið er verðmæti, sem skal gæta eins og peninga eða tékka.

  6.2. Korthafi ábyrgist að varðveita kortið og leyninúmer þess, þannig að enginn annar en hann geti notað það.

  6.3. Korthafi skuldbindur sig til:
  a) að eyðileggja umslag og miða með leyninúmeri um leið og hann hefur móttekið og lært leyninúmerið eða skráð það á öruggum stað.
  b) að ef leyninúmerið er skráð, að gefa þá ekki til kynna að um sé að ræða leyninúmer vegna Debetkorts.
  c) að gefa engum upp leyninúmerið né skrá þá á kortið og geyma ekki upplýsingar um leyninúmerið í sömu hirslu og kortið.

  6.4. Korthafi ber ábyrgð á öllum greiðslum/úttektum, sem verða vegna notkunar debetkorts hans, sbr. þó 10.2 og 13.1 og 13.2.

  6.5. Aukakorthafi ber ábyrgð á greiðslum/úttektum sem gerðar eru með korti hans á sama hátt og korthafi.

  6.6. Korthafi ábyrgist tjón gagnvart bankanum, sem verður vegna vanrækslu hans við vörslu eða notkun kortsins eða leyninúmers þess, sbr. 10.2.

  6.7. Korthafa er skylt að tilkynna aðsetursskipti til bankans til að tryggja að reikningsyfirlit og aðrar upplýsingar berist honum með eðlilegum hætti.

 7. 7.1. Kortið er tengt viðskiptareikningi korthafa í bankanum. Heimild til greiðslu/úttektar með því, takmarkast við þá ráðstöfunarfjárhæð, sem er á þeim reikningi þegar kortið er notað.

  7.2. Korthafi skuldbindur sig til að eiga ávallt næga innistæðu eða yfirdráttarheimild fyrir hverri greiðslu/úttekt af þeim reikningi sem kortið er tengt. Hann ábyrgist að fara ekki yfir ráðstöfunarfjárhæð sína með notkun kortsins.

  7.3. Útgefendur kortsins eru ekki ábyrgir fyrir tjóni, sem verður vegna lagaboða, aðgerða stjórnvalda, náttúruhamfara, stríðs, verkfalls, verkbanns, skæruverkfalla eða annarra slíkra aðstæðna, rafmagnstruflana eða rafmagnsleysis, né vegna truflana í símkerfi eða öðrum boðleiðum eða samgöngum.

  7.4. Útgefendur kortsins eru ekki ábyrgir fyrir tjóni né óhagræði, sem verður vegna þess að móttöku er hafnað sem greiðslu hjá söluaðila eða í sjálfsafgreiðslutæki, né öðrum skaða, sem getur leitt þar af, sbr. þó 13.1 og 13.2.

 8. Bankinn ákveður gildistíma debetkortsins og er hann skráður á kortið hverju sinni.

 9. 9.1. Notkun kortsins innanlands og erlendis er heimil hjá söluaðilum þar sem uppi eru merkingar um viðtöku MAESTRO eða VISA ELECTRON, PLUS eða Cirrus.

  9.2. Úttektir eru millifærðar erlendis frá í gjaldmiðli viðkomandi lands og umreiknaðar í íslenskum krónum á gengi greiðslumiðlunarfyrirtækjanna á færsludegi, ásamt kostnaði.

 10. 10.1. Glatist kortið ber korthafa tafarlaust að tilkynna það til bankans eða næsta umboðsaðila MasterCard eða Visa, hvar sem hann er í heiminum. Korthafi á rétt á að fá staðfestingu á að hann hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni. Sé tilkynning gefin símleiðis, skal korthafi staðfesta hana skriflega innan viku. Þegar skrifleg yfirlýsing þar um hefur borist getur korthafi fengið útgefið nýtt kort.

  10.2. Sjálfskuldaábyrgð korthafa takmarkast við jafnvirði 150 evrur í ísl. krónum, ef kort hans er notað af óviðkomandi aðila, áður en hvarf þess er tilkynnt. Þetta á ekki við ef um stórfellt gáleysi eða svik af hálfu korthafa hefur verið að ræða. Tilkynningaskyldu ber að fullnægja svo fljótt sem verða má við eftir að hvarf korts uppgötvast.

  10.3. Glati korthafi korti sínu erlendis býðst honum neyðarkort eða neyðarfé fyrir milligöngu Borgunar hf. vegna Maestro og Cirrus eða Valitor hf vegna VISA Electron og PLUS.Kostnaður vegna þessara þjónustu skuldfærist á bankareikning skv. gjaldskrá.

  10.4. Finni korthafi síðar kort, sem tilkynnt hefur verið glatað, er honum ekki heimilt að nota það. Tilkynna ber bankanum, Valitor hf.eða Borgun hf. endurheimtuna og senda kortið sundurklippt til bankans.

 11. 11.1. Gjöld vegna notkunar kortsins greiðir korthafi samkvæmt gjaldskrá á hverjum tíma. Gjaldskrá, sem veitir upplýsingar um gjöld, vaxtakjör og annað, sem tengist notkun Debetkorta, skal jafnan liggja frammi í bankanum.

  11.2. Bankanum er heimilt að færa korthafa til gjalda á viðskiptareikningi hans gjöld skv. gjaldskrá, sbr. 11.1.

  11.3. Korthafi heimilar endurnýjun kortsins áður en gildistíminn rennur út, nema fyrirmæli berist um annað.

 12. 12.1. Kortið er ávallt eign bankans og getur hann afturkallað það fyrirvaralaust, ef um misnotkun eða vanskil er að ræða hjá korthafa.

  12.2. Bankinn hefur heimild til þess að skrá öll afturkölluð kort og miðla þeim upplýsingum til seljenda vöru og þjónustu. Ef seljandi óskar þess að korthafi skili eftirlýstu korti, þá ber honum að afhenda það.

  12.3. Ef bankinn neyðist til að ógilda kort vegna misnotkunar, er áskilinn réttur til að setja upplýsingar þar um á lokanaskrá banka og sparisjóða og varðveita þar.

  12.4. Korthafa er óheimilt að nota kortið eftir að gildistími þess rennur út eða það hefur verið ógilt. Misnotkun kortsins varðar við lög sbr. m.a. 249 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 13. 13.1. Telji korthafi að hann hafi orðið fyrir skaða vegna tæknilegrar bilunar í hraðbanka eða öðrum sjálfsafgreiðslutækjum, þá ber bankanum fyrir hönd viðkomandi sölu- eða þjónustuaðila að færa fram fullgild rök fyrir því að búnaðurinn hafi starfað rétt þá er umrædd viðskipti fóru fram, en er ella ábyrgur fyrir tjóninu.

  13.2. Ábyrgð bankans takmarkast við beint fjárhagslegt tjón korthafa, en nær ekki til annars skaða eða óþæginda, sem leitt geta af bilun sjálfsafgreiðslubúnaðar. Bankinn ábyrgist ekki tjón þegar tæknibilun á að vera korthafa ljós, svo sem þegar skilaboð þess efnis koma frá á tölvuskjá.

 14. 14.1. Bankinn áskilur sér rétt til að breyta notkunarreglum þessum og skilmálum, enda séu þær breytingar tilkynntar korthöfum með minnst 15 daga fyrirvara. Í tilkynningu um breytta skilmála skal vakin athygli á því í hverju breytingarnar felist og á rétti korthafi til að segja samningi upp. Noti korthafi kort sitt eftir að breyttir skilmálar hafa tekið gildi telst hann samþykkur breytingunni.

  14.2. Vilji korthafi segja kortinu upp skal hann tilkynna það skriflega til bankans og skila kortinu sundurklipptu.

 15. 15.1. Öll mál, sem rísa kunna af notkun kortsins skulu, nema á annan veg sé samið, fara eftir íslenskum lögum. Korthafi samþykkir auk þess að bankinn megi reka innheimtumál í því landi, sem korthafi hefur búsetu hverju sinni.

  15.2. Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

B. DEBETKORT SEM GREIÐSLUKORT

 1. Þegar korthafi greiðir fyrir vöru eða þjónustu með debetkorti sínu og undirritar kaupnótu eða notar leyninúmer (PIN) vegna þeirra viðskipta, þá staðfestir hann að næg ráðstöfunarfjárhæð sé á reikningi sínum og samþykkir þar með, að sú upphæð sé tekin út af honum, samkvæmt færslu- og bókunaraðferðum bankans.

 2. Korthafi fær afhent eintak sölunótu við notkun kortsins, en annað eintak er varðveitt hjá seljanda. Færsluboð eru send þaðan rafrænt til uppgjörs hjá banka/sparisjóði seljanda og korthafa. Upplýsingar um viðskipti geymast í bókhaldi þess aðila og verða ekki látnar öðrum í té, nema vegna rannsóknar opinbera mála, sé þeirra krafist.

 3. Sérhver ágreiningur eða tjón vegna kaupa á vöru eða þjónustu, sem greidd er með kortinu, er útgefanda þess algerlega óviðkomandi og án ábyrgðar fyrir hann.

 4. Bankanum er heimilt að skuldfæra viðskiptareikning korthafa fyrir úttekt hans með korti, miðað við útgáfudag/dagsetningu korthafa.Korthafi getur ekki afturkallað greiðslur, er hann innir af hendi með korti sínu.

 5. Greiðslur með debetkorti koma fram á reikningsyfirliti þess viðskiptareiknings, sem kortið er tengt og korthafi fær sent frá bankanum með umsömdu millibili. Á yfirlitinu kemur fram nafn seljenda, þar sem kortið var notað, ásamt dagsetningu og upphæð. Ef um erlend viðskipti er að ræða kemur fram upphæð kauplandsins. Ef korthafi hefur athugasemdir við reikningsyfirlit sitt ber honum að tilkynna það bankanum ekki seinna en 20 dögum frá móttöku þess. Í vafatilvikum hvílir sönnunarbyrðin á kortaútgefanda.

C. DEBETKORT SEM TÉKKAÁBYRGÐARKORT

Ef debetkort er tengt tékkareikningi tekur reikningsbanki ábyrgð á tékkum korthafa, sem eru ekki hærri en tiltekin ábyrgðarfjárhæð samkvæmt eftirfarandi skilyrðum.

 1. Ábyrgð reikningsbanka nær til tékka, sem móttakandi hefur tekið við sem greiðslu frá útgefanda tékkans í góðri trú og innleysir sjálfur hjá banka og sparisjóði.

 2. Útgefandi tékka skal við útgáfu hans framvísa korti, sem útgefið er til hans af sama banka eða sparisjóði og tékkinn er gefinn út á. Móttakanda tékka ber að gæta þess að undirskrift á tékka sé í samræmi við undirskrift á debetkorti, bera saman mynd á korti við þann sem framvísar því, og skrá númer kortsins inn á tékkann undir yfirskrift útgefandans. Jafnframt ber móttakanda að fullvissa sig um, að tékki sé rétt útfylltur. Ábyrgðin nær ekki til tékka, sem reynast útgefnir í samvinnu útgefanda og móttakanda tékka til að fara í kringum samkomulag þetta.

 3. Breyting á ábyrgðarfjárhæð er auglýst hverju sinni.

D. DEBETKORT Í HRAÐBÖNKUM

 1. Þegar debetkortið er notað í hraðbönkum kemur innsláttur sérstaks leyninúmers (PIN-númer) í stað undirskriftar og skoðast notkun ákortinu og leyninúmerinu vera kvittun korthafa til bankans fyrir úttekinni fjárhæð.
 2. Bankinn ákvarðar þá þjónustu, sem hraðbankinn veitir á hverjum tíma og áskilur sér rétt til að auka hana eða minnka.
 3. Bankinn áskilur sér rétt til að loka hraðbankanum um stundarsakir á meðan eftirlit eða önnur vinna við hann útheimtir að hann sé lokaður. Korthafi á ekki rétt á skaðabótum vegna tjóns, sem hann kann að verða fyrir, ef hraðbanki er tekinn úr notkun eða bilar.

E. DEBETKORT TIL ÚTTEKTAR Í BANKA/SPARISJÓÐI

 1. Við peningaúttekt eða greiðslu í banka eða sparisjóði skal framvísakortinu hjá gjaldkera. Afgreiðsla fer fram á rafrænan hátt og gilda um hana liðir B1, 2, 4 og 5 í reglum þessum.

Reykjavík febrúar 2012
Landsbankinn hf.