Viltu spara hluta af sum­ar­laun­un­um þín­um?

Það skiptir flesta máli að fá góðar tekjur af sumarvinnunni og eiga sem mest eftir í lok sumars. Hér fjöllum við um nokkur atriði sem er gott að hafa í huga þegar þú ræður þig í sumarvinnuna og vilt byrja að spara.
17. maí 2022 - Landsbankinn

Þegar þú ræður þig í vinnu átt þú að fá upplýsingar um kaup, kjör og vinnutíma. Þú þarft líka að hafa á hreinu hvort þú sért launamaður eða verktaki. Þegar þú ert launamaður nýtur þú meiri réttinda samkvæmt lögum og kjarasamningum en sem verktaki. Ef þú vilt fá upplýsingar um hvaða réttinda þú nýtur getur þú leitað til stéttarfélagsins þíns og fengið upplýsingar og ráðgjöf.

Það er líka góð regla að fara vandlega yfir launaseðilinn um hver mánaðamót, skoða tímaskráningu, launataxta, hvort launin hafi verið lögð inn á reikninginn þinn, hvort þú fáir greitt orlof (ef það á við) og að greitt sé í lífeyrissjóð.

Hvað sýnir launaseðillinn?

Þegar þú færð útborgað í fyrsta sinn sérðu á launaseðlinum þínum að við launin þín geta bæst ýmsar greiðslur, s.s. orlofsgreiðslur, mótframlag launagreiðanda í skyldulífeyrissparnað og viðbótarlífeyrissparnað sem þú færð ekki útborgaðar strax. Svo er líka tekið af laununum þínum, t.d. skattur, greiðslur í lífeyrissjóð og gjald til stéttarfélags.

Ef þú ert 16 ára eða eldri áttu rétt á persónuafslætti sem er í raun skattaafsláttur sem dregst frá þeim skatti sem þú greiðir af launum þínum. Persónuafsláttur árið 2022 er 53.916 krónur á mánuði, eða 646.992 kr. á ári. Ef persónuafsláttur er ekki fullnýttur í hverjum mánuði safnast hann upp sem kemur sér sérlega vel fyrir þau sem eru bara með vinnu á sumrin. Ef þú ert með fleiri en einn vinnuveitanda þarftu að passa að persónuafslátturinn þinn sé ekki fullnýttur hjá báðum aðilum – þú vilt ekki fá bakreikninginn frá Skattinum.

Upplýsingar um persónuafslátt hjá Skattinum

Það borgar sig að spara

Ef þú vilt eiga afgang í lok sumars þarftu að spara. Upphæðin þarf ekki að vera há en margt smátt gerir eitt stórt. Það getur verið mjög einfalt að byrja – aðalmálið er að ákveða að spara. Þú getur farið í appið, sett þér sparnaðarmarkmið og appið reiknar hversu mikið þú þarft að leggja fyrir á mánuði til að ná markmiðinu. Þú getur valið hvort þú leggur fyrir fasta upphæð í hverjum mánuði eða ákveðið hlutfall af laununum þínum. Með sjálfvirkum sparnaði þarftu ekki að muna eftir því að leggja hluta af laununum til hliðar.

Sparnaður er hluti af því að undirbúa framtíðina, tímamótin, húsnæðiskaupin eða hvað sem er. Ef þú ert 18 ára eða eldri þá getur þú stofnað mánaðarlega áskrift í appinu og stundað viðskipti með sjóði Landsbréfa.

Nánar um verðbréf í appi

Viðbótarlífeyrissparnaður til að kaupa fyrstu íbúð

Frá 16 ára aldri getur þú borgað hluta af laununum þínum í viðbótarlífeyrissparnað. Ef þú greiðir 2-4% af heildarlaunum í viðbótarlífeyrissparnað þá færðu aukalega 2% af laununum þínum frá vinnuveitanda sem mótframlag. Þessi 2% frá vinnuveitanda eru í raun launahækkun sem þú færð bara ef þú ert með viðbótarlífeyrissparnað. Þú getur síðar nýtt þér viðbótarlífeyrissparnaðinn, skattfrjálst, til þess að kaupa þína fyrstu íbúð. Það getur því margborgað sig að skrá sig sem fyrst í viðbótarlífeyrissparnað.

Meira um viðbótarlífeyrissparnað

Hvert fer skyldulífeyrissparnaðurinn þinn?

Sem launamaður greiðir þú 4% af laununum þínum í skyldulífeyrissparnað en vinnuveitandi yfirleitt 11,5% til viðbótar, eða samtals 15,5%. Stór hluti launamanna getur valið í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða en sumar starfsstéttir eru bundnar tilteknum lífeyrissjóðum vegna kjarasamninga. Sjóðirnir eru ólíkir og því mikilvægt að kynna sér þá möguleika sem í boði eru. Hjá flestum lífeyrissjóðum rennur allur eða meirihluti skyldulífeyrissparnaðarins í samtryggingu. Samtrygging er ekki eign heldur réttindi sem tryggja fastar mánaðarlegar greiðslur út ævina.

Meira um skyldulífeyrissparnað

Allt er auðveldara með rafrænum skilríkjum

Við mælum með að þú náir þér í rafræn skilríki. Þau eru einföld og örugg leið til innskráningar t.d. í appið og netbankann og nýtast til auðkenningar og undirritunar á ýmis konar skjölum. Rafræn undirritun hefur sama lagalegt gildi og hefðbundin undirskrift. Rafræn skilríki eru vistuð á SIM-kortum í farsímum og eru auðveld í notkun því einungis þarf farsíma og PIN-númer sem þú velur þegar þú virkjar skilríkin. Ef þú ert ekki með rafræn skilríki í símanum getur þú komið í næsta útibú og virkjað þau. Forráðamaður getur skrifað undir virkjun rafrænna skilríkja fyrir 18 ára og yngri á mitt.audkenni.is og þarf þess vegna ekki að koma með í bankann.

Í langflestum tilvikum eru fyrstu skrefin út á vinnumarkaðinn skemmtileg og gagnleg reynsla. Vonandi kynnist þú nýju og áhugaverðu fólki, færð innsýn í hin ýmsu störf og lærir eitthvað nýtt. Gangi þér vel!

Greinin birtist fyrst 1. júní 2021

Þú gætir einnig haft áhuga á
9. okt. 2018

Mikilvægt að afla sér stöðugt nýrrar þekkingar

Það eru til ótal margar og mismunandi leiðir til að afla sér þekkingar, hvort sem það tengist starfi eða einkalífi. En af hverju er sérstaklega mikilvægt á vinnumarkaði í dag að huga markvisst að því að halda áfram að læra?
Starfsumsókn
17. apríl 2018

Mikilvæg fyrstu kynni við tilvonandi vinnuveitanda

Ferilskráin og kynningarbréfið eru yfirleitt það fyrsta sem tilvonandi vinnuveitandi sér um þig og því er mikilvægt að vanda til verka. Berglind Ingvarsdóttir í mannauðsdeild Landsbankans fer yfir það helsta sem einkennir vel heppnaða starfsumsókn.
20. mars 2018

Átta góðar ábendingar fyrir atvinnuviðtalið

Umsóknargögnin voru vel heppnuð, ferilskráin þín og kynningarbréfið hittu greinilega í mark. Nú ert þú á leiðinni í atvinnuviðtal og þarft að standa þig. En hvernig á að undirbúa sig og hvert er leyndarmálið á bak við vel heppnað starfsviðtal?
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur