Hvað á að borga fyr­ir barnapöss­un?

Þegar foreldrar þurfa að bregða sér af bæ eða geta ekki sótt börn á réttum tíma í leikskóla eða skóla þarf einhver að hlaupa í skarðið. Ef aðstoðar eldri systkina, afa eða amma nýtur ekki við er gott að geta fengið einhvern til að passa. En hvað á að borga barnapíum/barnfóstrum á tímann?
Barnapössun
12. mars 2018

Barnapíur hafa ekki gengið í stéttarfélag og því er hvergi getið um launataxta fyrir barnapössun í kjarasamningum. Barnapíulaun eru því háð frjálsum samningum og fara mjög eftir aðstæðum hverju sinni. Þannig má gera ráð fyrir að launin hækki eftir því sem barnið sem verið er að passa er yngra. Mögulega er hægt að fara fram á álag ef barnið er einstaklega ódælt, einhvers konar óþekktarálag. Og rétt eins og hjá öðrum starfsstéttum má gera ráð fyrir að launagreiðslur fari eftir aldri launamannsins og starfsaldri. Barnapía sem er 13 ára gömul og passar 5 ára barn í einn klukkutíma eftir leikskóla má væntanlega eiga von á tilboði um lægra tímakaup en barnapía um tvítugt, hokin af reynslu, sem passar 1 árs barn fram yfir háttatíma.

En aftur að rannsóknarspurningunni: Hvað á að borga fyrir pössun á tímann?

Rauði krossinn heldur reglulega námskeiðið "Börn og umhverfi" sem er m.a. ætlað börnum og ungmennum sem annast yngri börn. Þessi námskeið Rauða krossins komast næst því að vera fagmenntun fyrir barnapíur en eins og alkunna er þá geta fagmenntaðir starfsmenn yfirleitt krafist hærri launa en þeir sem eru ófaglærðir.

Rauði krossinn er þó hvorki fag- né stéttarfélag barnapía og gefur ekki upp viðmiðunartaxta fyrir barnapössun. "En ef spurningin um tímakaup kemur upp á námskeiði hjá okkur höfum við sagt að til dæmis sé hægt að miða við kaupið í unglingavinnunni. Ekki að semja um lægra kaup en þar býðst. Einnig þurfi að hugsa um á hvaða tíma er verið að passa, hversu mörg börn, aldur þeirra, hvort barnapían eigi heima langt í burtu frá barninu sem verið er að passa og fleira slíkt. Þetta eru atriði sem er gott að hafa í huga en teljast ekki leiðbeiningar um kjaramál," segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.

Miðað við þetta má e.t.v. líta svo á að kaupið í unglingavinnunni sé einskonar lágmarks- eða viðmiðunarlaun fyrir barnapössun. Laun í vinnuskólum eru mismunandi á milli sveitarfélaga en í dæmaskyni má benda á launin í Vinnuskóla Kópavogs. Þar fá 13-14 ára unglingar 526 kr. á tímann og taxtinn hækkar upp í 1.437 kr. fyrir 16-17 ára.

Blaðburðarstörf eru algengur atvinnuvegur ungmenna og þar eru launin töluvert hærri enda fer starfið fram eldsnemma á morgnanna þegar flestir unglingar vilja frekar kúra undir sæng. Hjá Morgunblaðinu fá blaðberar greitt samkvæmt næturvinnutaxta VR og fá þeir yngstu (14 ára og yngri) 1.436 kr. á tímann.

Í enn frekara samanburðarskyni má síðan nefna laun fyrir að vinna þjónuststörf í verslunum en unglingar sækja nokkuð í slík störf. Samkvæmt upplýsingum frá VR er algengt að unglingar sem vinna á afgreiðslukassa fái greitt samkvæmt grunntaxta í kjarasamningum eða a.m.k. nálægt því. Í kjarasamningi VR og SA sem gildir frá 1. maí 2017 er kveðið á um að 14 ára unglingar sem vinna í verslunum fái um 960 krónur á tímann í dagvinnu en 1.340 krónur í eftirvinnu.* Launin fara síðan stighækkandi eftir aldri. Ofan á launin bætist orlof og desemberuppbót, í réttu hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi. (Taxtinn hækkar um 3% þann 1. maí 2018.)

Dæmi um launataxta fyrir unglinga – kr./klst.
14 ára
15 ára
16 ára
17 ára
Vinnuskóli Kópavogs
526
701
876
1.437
Starf í verslunum
(dagvinna)
957
1.096
1.297
1.374
Blaðberar hjá
Morgunblaðinu
(næturvinna)
1.436
1.645
1.945
2.062

Könnun um laun fyrir barnapössun

Til að freista þess að varpa enn frekara ljósi á hvað greitt er fyrir barnapössun var enn fremur gerð óformleg spurningakönnun meðal starsfólks Landsbankans.

Niðurstaða könnunarinnar var að um þriðjungur barnfóstra fær 1.000 krónur á tímann og var það algengasta tímakaupið. Næstalgengast var að barnfóstrur fengju 700 krónur á tímann (16,67%) en alls greiddi um 30% þátttakenda 500-700 krónur á tímann. Flestar barnfóstrur eru á aldrinum 14-15 ára, eða 36%, en aðeins þrjár voru á aldrinum 12-13 ára og yngri. Um 30% barnfóstra er á aldrinum 16-19 ára og um 20% eru eldri en 20 ára. Í flestum tilvikum (43%) er greitt fyrir pössun á einu barni, um þriðjungur þarf að passa tvö börn og í 23% tilvika ber barnfóstran ábyrgð á þremur börnum.

Þátttakendur í könnuninni voru 36 og uppfyllir hún engan veginn vísindalegar kröfur. Engu að síður ætti könnunin, og viðmiðunarlaunin hér fyrir ofan, að geta gefið foreldrum hugmynd um hvað sanngjarnt er að greiða fyrir barnapössun. Svo þarf bara að finna réttu manneskjuna.

*Í reglugerð um vinnu barna og unglinga segir að 13 og 14 ára unglingar megi vinna létt störf í sérverslun og stórmörkuðum en undanskilin er vinna við afgreiðslukassa. Unglingar verða því að vera orðnir 15 ára svo að þeir megi vinna á kassa í verslun. Nánari upplýsingar um vinnu barna og unglinga má fá á vef umboðsmanns barna.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Landsbankans (og þriggja barna faðir)

Þú gætir einnig haft áhuga á
1. júní 2021

Viltu spara hluta af sumarlaununum þínum?

Það skiptir flesta máli að fá góðar tekjur af sumarvinnunni og eiga sem mest eftir í lok sumars. Hér fjöllum við um nokkur atriði sem er gott að hafa í huga þegar þú ræður þig í sumarvinnuna og vilt byrja að spara.
9. okt. 2018

Mikilvægt að afla sér stöðugt nýrrar þekkingar

Það eru til ótal margar og mismunandi leiðir til að afla sér þekkingar, hvort sem það tengist starfi eða einkalífi. En af hverju er sérstaklega mikilvægt á vinnumarkaði í dag að huga markvisst að því að halda áfram að læra?
Starfsumsókn
17. apríl 2018

Mikilvæg fyrstu kynni við tilvonandi vinnuveitanda

Ferilskráin og kynningarbréfið eru yfirleitt það fyrsta sem tilvonandi vinnuveitandi sér um þig og því er mikilvægt að vanda til verka. Berglind Ingvarsdóttir í mannauðsdeild Landsbankans fer yfir það helsta sem einkennir vel heppnaða starfsumsókn.
20. mars 2018

Átta góðar ábendingar fyrir atvinnuviðtalið

Umsóknargögnin voru vel heppnuð, ferilskráin þín og kynningarbréfið hittu greinilega í mark. Nú ert þú á leiðinni í atvinnuviðtal og þarft að standa þig. En hvernig á að undirbúa sig og hvert er leyndarmálið á bak við vel heppnað starfsviðtal?
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur