Fyrstu skref­in í verð­bréfa­fjár­fest­ing­um

Áður en byrjað er að fjárfesta í verðbréfum er mikilvægt að hafa ákveðin lykilatriði á hreinu og vera meðvituð um áhættuna.
10. maí 2022

Það er mikilvægt að spara, bæði til skamms og langs tíma. Verðbréfafjárfestingar, það er að segja fjárfesting í hlutabréfum, skuldabréfum og sjóðum sem fjárfesta aðallega í verðbréfum, er ein leið til að byggja upp sparnað. Sparnaður þar sem fjárfest er í verðbréfum hentar fyrst og fremst til að ná betri ávöxtun til lengri tíma litið. Ástæðan er sú að virði verðbréfa sveiflast og þeim fylgir þar með meiri áhætta. Ef þú ætlar að spara til skemmri tíma, svo sem til að eiga varasjóð ef eitthvað kemur upp á, er mælt með öðrum kostum en fjárfestingu í verðbréfum.

Verðbréfafjárfestingar sem sparnaður

Fræðslumyndband um það helsta sem gott er að vita um fjárfestingar í verðbréfum.

Hlutabréf

Fræðslumyndband um fyrstu skrefin í hlutabréfakaupum.

Sjóðir og skuldabréf

Fræðslumyndband um það sem gott er að vita áður en þú kaupir í sjóði.

Verðbréfum fylgir alltaf einhver áhætta og getur eignin stækkað eða minnkað eftir því hvernig gengur á mörkuðum. Virðið getur þannig sveiflast, lækkað tímabundið og hækkað aftur en almennt má segja að áhætta og ávöxtun fylgjast að. Því meiri sem áhættan er, því meiri von er um hærri ávöxtun, en hættan á að verða fyrir tapi er að sama skapi meiri. 

Á hinn bóginn er ljóst að sumir stunda það að kaupa hlutabréf með það fyrir augum að selja þau stuttu síðar með hagnaði. Það er auðvitað mögulegt að ávaxta peninga hratt með þessum hætti en áhættan er svo sannarlega fyrir hendi auk þess sem það krefst mikillar þekkingar og að fólk fylgist vel með markaðinum. Það þarf einnig að hafa í huga að við hlutabréfaviðskipti eru teknar þóknanir. Ef þú ert mikið að kaupa og selja geta þóknanirnar hlaðist upp og dregið úr heildarávöxtun.

Skuldabréf eru að jafnaði áhættuminni eignaflokkur en hlutabréf þar sem virði þeirra sveiflast almennt ekki eins mikið. Flestir fjárfesta í skuldabréfum í gegnum sjóði.

Það eru til ýmsar leiðir til að draga úr áhættu eða verðsveiflum á eignasafni í verðbréfum. Það er t.d. áhættuminna að eiga í mörgum hlutabréfum fremur en einu og í mörgum geirum atvinnulífsins og í mörgum löndum. Svo má draga enn frekar úr áhættunni með því að blanda saman ólíkum eignaflokkum eins og dreifðri hlutabréfaeign með dreifðri skuldabréfaeign. Þetta getur þú annað hvort gert upp á eigin spýtur, með því að fjárfesta í ólíkum sjóðum eða fjárfest í blönduðum sjóði þar sem búið er að setja saman fyrir þig vel dreift eignasafn í ólíkum eignaflokkum.

Fræðslumyndband: Verðbréfafjárfestingar sem sparnaður

Áður en þú byrjar að fjárfesta á verðbréfamarkaði ættir þú að íhuga vel nokkra þætti:

1. Markmið og tímarammi fjárfestingar
Hvert er markmiðið með fjárfestingunni og til hve langs tíma ætlar þú að fjárfesta? Eftir því sem tímarammi fjárfestingarinnar er lengri, því meiri áhættu er hægt að taka þar sem þú getur beðið af þér verðsveiflur. En það þarf líka að hugsa um hvort markmiðið sé að eignin haldi verðgildi sínu miðað við verðbólgu eða hvort markmiðið sé einfaldlega að fá eins góða ávöxtun og mögulegt er.

2. Viðhorf til áhættu
Hversu mikla áhættu þolir fjárhagurinn þinn? Hversu mikla áhættu ert þú persónulega til í að taka og þolir þú tap eða lækkun á eignasafninu þínu um óákveðinn tíma? Sumir eru tilbúnir til að taka mikla áhættu og kippa sér ekki upp við miklar ávöxtunarsveiflur meðan aðrir þola þessar sveiflur illa, kjósa því minni sveiflur og lægri ávöxtun. Viðhorf til áhættu getur svo breyst með aukinni þekkingu og reynslu af verðbréfum og verðbréfaviðskiptum.

3. Þekking á verðbréfamarkaðinum
Ef þú þekkir verðbréfamarkaðinn lítið gæti verið skynsamlegt að taka minni áhættu í upphafi og finna út með reynslunni hversu mikla áhættu þú þolir. Það getur líka verið betri kostur fyrir óreynda að fjárfesta í hlutabréfasjóðum fremur en í stökum hlutabréfum og vera þannig með dreifðari áhættu og minni verðsveiflur, að minnsta kosti fyrir stærsta hluta eignasafnsins.

4. Fjárhagsstaða
Hversu vel þolir þú að takast á við tap? Eftir því sem fjárhagsstaða fólks er betri, því meiri áhættu getur það tekið, að minnsta kosti með hluta af eignasafni sínu. Ef þú mátt alls ekki við því að tapa peningum ættir þú að hugsa um að fjárfesta í áhættuminni eignum.

5. Eignadreifing
Það er ekki skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfu heldur dreifa þeim bæði í mismunandi eignaflokka og innan eignaflokka. Þau sem ekki hafa sérfræðiþekkingu á mörkuðum fjárfesta gjarnan í dreifðum sjóðum sem sérfræðingar stýra og nýta þekkingu sína til að setja saman eignasafn eftir fyrirfram ákveðnum markmiðum.

Fræðslumyndband: Hlutabréf

Hvernig fjárfesti ég í verðbréfum?

Hægt er að fjárfesta í hlutabréfum og margskonar sjóðum í netbanka Landsbankans og í Landsbankaappinu á einfaldan hátt og fylgjast þar með þróun fjárfestingarinnar.

Hlutabréf

Þegar þú kaupir hlutabréf eignast þú hlut í fyrirtækinu sem þú kaupir bréfin í og verður einn af hluthöfum þess. Þannig getur þú keypt hlut í fyrirtæki sem þú telur að muni ganga vel og hefur trú á að hækki í virði.

Ávöxtunin ræðst af því hvernig fyrirtækinu gengur í sínum rekstri  og væntingum fjárfesta. Hlutabréfin geta hækkað eða lækkað eftir því hvernig fyrirtækinu vegnar en fyrirtæki sem ná markmiðum sínum greiða oft út arð eða nýta hagnaðinn til að byggja fyrirtækið frekar upp í þeirri von að það stækki og dafni enn frekar með tilheyrandi hækkun hlutabréfaverðs. Raunverulegur hagnaður eða tap verður hins vegar ekki til fyrr en þú selur hlutabréfin.

Það getur verið áhættusamt að eiga hlut í einu eða fáum fyrirtækjum. Þannig getur einn atburður eða áhrifaþáttur í rekstrarumhverfi fyrirtækisins haft gríðarleg áhrif á eignasafnið þitt, bæði til góðs en líka til hins verra. Þannig borgar sig að hafa í huga upphaflegu markmiðin þín, áhættuna sem þú þolir og vilt taka og þolinmæðina sem þú hefur til að fara í gegnum tímabundnar niðursveiflur.

Kaup í fleiri fyrirtækjum í ólíkum geirum og jafnvel í mörgum löndum er ein leið til að dreifa áhættunni en það er einnig hægt að gera með því að fjárfesta t.d. í hlutabréfasjóðum.

Annað sem gott er að hafa í huga er að tekin er þóknun fyrir hver kaup og sölu hlutabréfa sem þýðir að óhagkvæmt getur verið að kaupa hlutabréf fyrir mjög lágar upphæðir, sérstaklega til skamms tíma.

Almenningur getur keypt hlutabréf í fyrirtækjum sem skráð eru á markað í kauphöll, en kauphöll er heiti sem notað er fyrir skipulagðan markað þar sem aðilar geta keypt og selt verðbréf. Fyrir félög veitir markaður aðgengi að fjárfestum og fjármagni. Kauphöllin á Íslandi er rekin af rekstraraðila sem heitir Nasdaq, en Nasdaq rekur tvo markaði á Íslandi, Aðalmarkað og First North. 

Tuttugu íslensk fyrirtæki eru í dag skráð á Aðalmarkað. Til þess að fá skráningu þurfa fyrirtæki að uppfylla ýmis skilyrði t.d. um lágmarksvirði og aldur. Í kjölfar skráningar þurfa fyrirtækin svo að sinna ríkri upplýsingaskyldu til eigenda sinna og markaðarins og sýna ákveðið gegnsæi í rekstri. Þannig eru mun meiri upplýsingar opinberar um rekstur skráðra fyrirtækja sem gagnlegt getur verið að kynna sér bæði áður en fjárfest er og meðan þú átt í fyrirtækinu.

First North hlutabréfamarkaðurinn var opnaður nýlega og er sniðinn að þörfum vaxtarfyrirtækja sem eru að taka sín fyrstu skref á verðbréfamarkaði. Gerðar eru minni kröfur til fyrirtækja sem eru skráð á First North t.a.m. um stærð og rekstrarsögu.

Talað er um óskráð hlutabréf ef þau eru ekki á markaði og er þá aðgengi að þeim bréfum erfiðara og upplýsingagjöf um félagið sjálft og rekstur þeirra minni.

Gengi hlutabréfa vísar til verðs eins hlutabréfs í félagi. Ef fram kemur að gengi félags sé 120 krónur, kostar eitt hlutabréf í því félagi 120 krónur. Gengi hlutabréfa er ólíkt milli félaga og segir í sjálfu sér ekkert til um verðmæti félaga. Það gagnast því lítið að bera gengi í einu félagi saman við gengi í öðru félagi. Til að finna út markaðvirði félags margfaldar þú gengið með fjölda hlutabréfa í félaginu, en þær upplýsingar er að finna í ársreikningi hvers félags fyrir sig.

Fræðslumyndband: Sjóðir og skuldabréf

Sjóðir og skuldabréf

Sjóðir eru í stuttu máli safn margra fjárfestinga og er ætlað að einfalda fólki dreifingu eigna til að draga úr áhættu og sveiflum. Margar tegundir sjóða eru í boði og fylgja þeir ólíkum markmiðum. Sumir sjóðir stefna til dæmis að því að lágmarka áhættu eða sérhæfa sig í tilteknum atvinnugreinum eða hugmyndafræði, s.s. sjálfbærni.

Fjárfesting í sjóðum er góð ávöxtunarleið fyrir sparnað. Auk þess er fjárfesting í sjóðum góð leið til að byggja upp sparnað með því að vera í mánaðarlegri áskrift. Athugaðu að þóknun er tekin fyrir kaup í sjóðum en ekki sölu, en áskriftir í sjóði eru þóknanalausar.

Fjárfestingu í sjóðum fylgir alltaf áhætta þar sem gengi þeirra getur bæði hækkað og lækkað. Ef sjóðirnir fjárfesta í erlendum eignum getur gengisflökt líka haft áhrif. Áhættan er ólík eftir sjóðum. 

1. Hlutabréfasjóðir fjárfesta fyrst og fremst í hlutabréfum. Hægt er að fjárfesta í vel dreifðum hlutabréfasöfnum, bæði innlendum og erlendum. Hlutabréfasjóðir henta þeim sem vilja fjárfesta til lengri tíma, fimm ár eða lengur, þar sem sveiflur geta verið talsverðar.

2. Skuldabréfasjóðir leggja áherslu á fjárfestingar í skuldabréfum. Skuldabréf má segja að séu lán sem fyrirtæki eða opinberir aðilar taka hjá fjárfestum gegn loforði um endurgreiðslu og tiltekna vexti. Vextirnir eru hærri eftir því sem áhættan þykir meiri en almennt þykja skuldabréf öruggari fjárfesting en hlutabréf þar sem verðsveiflurnar eru yfirleitt minni.

3. Blandaðir sjóðir fjárfesta í dreifðu og blönduðu safni verðbréfa, öðrum sjóðum og innlánum. Með blönduðum sjóði er hægt að ná fram eignadreifingu sem dregur úr áhættu og getur hentað til ávöxtunar til lengri tíma. Dreifð eignasöfn skila almennt hærri ávöxtun fyrir lægri áhættu til lengri tíma litið. Helsti kosturinn er að blandaðir sjóðir gera þér kleift að kaupa í vel dreifðum söfnum verðbréfa sem eru sett saman af sérfræðingum sem hafa atvinnu af því að fylgjast með mörkuðum og stýra sjóðunum fyrir hönd fjárfesta.

4. Vísitölusjóðir, hvort sem er skuldabréfa- eða hlutabréfasjóðir, eiga verðbréf í sömu hlutföllum og eru í viðmiðunarvísitölunni sem þeir elta. Rekstrarkostnaður þessara sjóða er almennt lágur þar sem engin virk stýring fer fram, heldur endurspegla eignir sjóðanna þverskurð af tilteknum verðbréfum.

Landsbankinn býður fjölda sjóða sem hafa ólík markmið og borgar sig að kynna sér þá vel. Þú getur skoðað sjóðaúrvalið í Landsbankaappinu og í heimabankanum undir verðbréf og sjóðir. Við hvern sjóð má sjá sveiflumæli sem fer frá einum og upp í sjö þar sem 1 þýðir litlar sveiflur og minni áhætta og 7 þýðir að sjóður geti sveiflast mikið og að áhættan er töluverð.

Þekking og ráðgjöf

Eins og fyrr segir er mikilvægt að afla sér þekkingar áður en byrjað er að fjárfesta. Ég hvet þig til að leita þér ráðgjafar og kynna þér frekari upplýsingar um viðskipti með hlutabréf eða sjóði, svo sem um helstu áhættuþætti, kostnað og þóknanir, áður en ákvörðun um fjárfestingu er tekin. Verðbréfatenglar í útibúum Landsbankans geta líka veitt upplýsingar og einnig er hægt að fá gott yfirlit yfir gengi verðbréfa á síðunni landsbankinn.is/markadir. Þar er t.d. hægt að bera saman þróun á gengi skráðra hlutabréfa eða sjóða á einfaldan hátt.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hlaðvarp: Ægir, Guðný og Elín
19. feb. 2021

Hvernig á að byrja að spara og fjárfesta?

Fjárfestingar og sparnaður eru umræðuefni þáttarins. Hvenær og hvernig er best að byrja að spara eða fjárfesta? Hvar liggja tækifærin? Hvernig er hægt að fá betri ávöxtun og meta áhættuna?
Verðbréfasíða í netbanka
5. okt. 2021

Þetta er gott að vita áður en þú kaupir hlutabréf

Áður en fjárfest er í hlutabréfum er mikilvægt að vera með lykilhugtök á hreinu, skilja ferlið og vera meðvituð um áhættuna sem fylgir.
Verðbréf í appi
3. maí 2021

Þetta er gott að vita áður en þú kaupir í sjóði

Fjárfesting í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er vinsæl leið til að ávaxta sparifé. Almennt má segja að slíkir sjóðir gefi kost á meiri ávöxtun en hefðbundnir sparireikningar, sérstaklega þegar vextir eru lágir. Áhættan er á hinn bóginn meiri og hún er mjög misjöfn á milli sjóða. Því er gott að þekkja nokkur lykilhugtök þegar þú veltir fyrir þér að setja sparnaðinn þinn, eða hluta af honum, í sjóð.
Gestir hlaðvarpsins
20. okt. 2020

Ungir fjárfestar

Hvernig byrjar maður að fjárfesta og afhverju ætti ungt fólk að hugsa um sparnað eða fjárfestingar?
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur