Sterkustu greinarnar og löndin

Verðmæti hlutabréfa í helstu kauphöllum veraldar

Við byrjum á yfirliti um helstu kauphallir veraldar. Þar fara viðskipti með hlutabréfin fram og miklu máli skiptir að kauphallir séu stórar og vel skipulagðar, veltan mikil og gott eftirlit með því að farið sé að lögum og reglum í viðskiptum.

Taflan hér fyrir neðan sýnir yfirlit sem unnið er eftir gögnum frá Alþjóðasamtökum kauphalla (e. World Federation of Exchanges, sjá heimasíðuna, www.world-exchanges.org). Það skal tekið fram að markaðsverðmæti hlutabréfanna er sett fram í Bandaríkjadollara til að unnt sé að bera saman stærð og umfang kauphallanna. Verðmæti hlutabréfanna miðast við lok ágústmánaðar 2009 en hafa verður í huga að verð á hlutabréfum sveiflast til og hefur þannig áhrif á hlutfallslegt vægi kauphallanna á heimsmarkaðnum. Jafnframt þarf að hafa í huga að gengi gjaldmiðla sveiflast til og gengi Bandaríkjadollara er lágt um þessar mundir í sögulegu samhengi. Áhrifin á samanburð í töflunni eru að vægi kauphalla utan Bandaríkjanna eykst umfram þær kauphallir þar sem viðskipti eru í Bandaríkjadollara.

Mjög margt athyglisvert kemur fram í töflunni. Veröldinni er skipti í þrjú heimssvæði, Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Kyrrahafslöndin og Evrópu, Mið-Austurlönd og Afríku. Hlutfallslega eru mestu verðmæti skráðra hlutabréfa í Norður- og Suður-Ameríku eða 39,4% af heildarverðmætinu í lok ágúst 2009. Bandarísku kauphallirnar tvær, New York Stock Exchange (sem heitir NYSE Euronext (US) eftir samrunann við Euronext) og Nasdaq OMX eru samtals með 31,9% þar af. Þá eru eftir 7,5% og kauphallirnar í Toronto (TSX Group) og brasilíska kauphöllin Bovespa í Sao Paulo eru með 3,3% og 2,4% hvor og þau 1,8% sem þá eru eftir skiptast á milli kauphallanna í Mexíkó, Chile, Kólumbíu og Perú.

Verðmæti hlutabréfa í kauphöllum í Asíu og Kyrrahafslöndum er orðið 32,4% af heildarverðmætinu. Japan vegur enn þyngst og er vægi kauphallarinnar í Tókíó 8,1% en Jasdaq og Osaka bæta aðeins hálfu prósenti við. Kauphöllin í Shanghai kemur næst (5%, og Shenzhen með 1,4%) og síðan Hong Kong (4,5%) en kauphallirnar á Indlandi saman eru með 4,9%. Þær sem þá eru eftir vega ekki mjög þungt sem hluti af heildinni en þar eru engu að síður skráð stór og vel þekkt fyrirtæki sem líka eru skráð í kauphallir á Vesturlöndum, einkum í London og New York. 

 

 

Euronext er evrópsk kauphöll með höfuðstöðvar í París en nær til kauphallanna í Belgíu, Hollandi, Portúgal og Liffe í London. Árið 2006 sameinuðust kauphöllin á Wall Street (NYSE) og Euronext og heita eftir það NYSE Euronext (US) og NYSE Euronext (Europe). Eins og fram kemur í töflunni er Euronext í Evrópu orðin jafnstór eða stærri en kauphöllin í London. Næstar koma kauphallirnar í Frankfurt, Madrid og Sviss en eftir það fer vægið minnkandi. Hlutur þessa heimssvæðis í heildarverðmæti hlutabréfa er 28% í lok ágúst 2009.

Taflan sýnir að kauphallirnar á Indlandi, í Kína, Brasilíu, Ástralíu, Kanada, Hong Kong og Suður-Kóreu eru orðnar stórar og jafnast á við kauphallir á Vesturlöndum sem við þekkjum betur. Á fjarlægari heimssvæðunum eru mjög stór og öflug fyrirtæki og mörg áhugaverð tækifæri. Fjöldinn allur af þessum fyrirtækjum er skráður á markaði í Bandaríkjunum og stefna Rose Invest er að nýta tækifærin á fjarlægu mörkuðunum með viðskiptum þar. Jafnframt eru skráðir kauphallarsjóðir á markaði í Bandaríkjunum sem fylgja vísitölum í Asíu eða Suður-Ameríku. Fyrirtæki í þeim vísitölum geta verið skráð í stóru kauphöllunum á viðkomandi landsvæðum, auk kauphallanna í New York og London.

Á opna vef Bloomberg upplýsingaveitunnar er að finna vísitölur kauphalla eða landssvæða sem áhugavert er að fylgjast með í ljósi þess hve kauphallarviðskipti í Suður-Ameríku og Asíu eru orðin mikilvæg í heimsbúskapnum. Sem dæmi má nefna Bovespa vísitöluna í brasilísku kauphöllinni í Sao Paulo, S&P/TSX vísitöluna í Toronto, Dow Jones Euro Stoxx 50 vísitöluna í Evrópu og S&P Asia 50 vísitöluna fyrir Asíufyrirtækin. Einnig mætti nefna S&P Latin America 40 sem kauphallarsjóðurinn ILF frá iShares, Barclays Global Investors, fylgir en hún er ekki birt á opna vef Bloomberg.

Rómanska Ameríka: Helstu greinar og fyrirtæki

Mikilvægustu lönd álfunnar efnahagslega eru Brasilía, Mexíkó, Argentína, Venesúela og Kólumbía. Brasilía og Mexíkó bera höfuð og herðar yfir önnur lönd álfunnar hvort sem litið er til íbúatölu eða landsframleiðslu. Tekjur á mann eru þó hæstar í Venesúela og Chile eða 10 til 12 þúsund dollarar á ári og eru sambærilegar við tekjur á mann í Rússlandi og Tyrklandi svo að dæmi séu tekin af löndum okkar megin á hnettinum. Tekjur á mann eru nokkru lægri í Brasilíu og Mexíkó eða 8 til 10 þúsund dollarar á ári en ætla má að þær fari hratt vaxandi á næstu árum.

 
Tafla 1: Löndin í Rómönsku Ameríku, íbúar og VLF

Tafla 1 sýnir yfirlit um öll löndin í Rómönsku Ameríku en þau eru samtals 20 (sá hluti Ameríku þar sem rómönsk tungumál eru opinber tungumál, einkum í Mið- og Suður-Ameríku) ásamt vergri landsframleiðslu ársins 2008 samkvæmt reikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og mannfjölda sem fenginn er frá CIA World Factbook en þar er miðað við áætlun í júlí 2009. Þriðji dálkurinn sýnir árstekjur á mann sem er hefðbundin leið til tekjusamanburðar á milli landa. Jafnan verður að hafa í huga að gengi gjaldmiðla getur haft áhrif á þennan samanburð og samanburður með kaupmáttarjöfnuði (e. Purchasing Power Parity) getur gefið betri mynd. 

Stærsta kauphöllin er í Sao Paulo í Brasilíu

Tilgangurinn hér er að finna bestu löndin og bestu atvinnugreinar. Sjónir beinast því að þeim löndum sem komin eru lengst í framvindunni og eru efst í töflunni.

 
Tafla 2: Helstu löndin og kauphallir

Í töflu 2 eru þau fimm lönd þar sem landsframleiðsla er mest og þar sem viðskipti með hlutabréf hafa náð að festa rætur í kauphöllum sem eiga aðild að Alþjóðasamtökum kauphalla (e. World Federation of Exchanges). Enn kemur í ljós að Brasilía og Mexíkó standa framar öðrum þjóðum í þessum heimshluta á þessu sviði en Chile og Kólumbía koma næst á eftir. Tekjur á mann eru hærri í Venesúela og þar er kauphöll þar sem stunduð eru viðskipti með hlutabréf. Kauphöllin í Caracas (Bolsa de Valores de Caracas) var stofnuð árið 1947 en hún á ekki aðild að Alþjóðasamtökum kauphalla og er því ekki tekin með í þessum samanburði. Ekki munu vera fyrirtæki frá Venesúela skráð á markaði í Bandaríkjunum. Í töflu 2 kemur enn í ljós að Brasilía, Mexíkó og Chile eru þau lönd í þessum heimshluta sem lengst eru komin hvað varðar viðskipti með hlutabréf.

Stærsta kauphöllin í þessum heimshluta er í Sao Paulo í Brasilíu og um 20 brasilísk fyrirtæki eru á lista Forbes um helstu fyrirtæki veraldar. Þau helstu eru Petrobras, olíufyrirtækið sem líka er skráð á NYSE, og Bradesco, banki sem var stofnaður árið 1943 í Marilia í suðausturhluta landsins en hefur síðan vaxið og dafnað í að verða eitt af helstu fyrirtækjum landsins. Panamian er hótelfyrirtæki frá Panama og Bank of Brazil og námafyrirtækið Vale do Rio Doce eru meðal helstu fyrirtækja þar. Vale er skráð á NYSE og er stærsta skráða fyrirtæki í rómönsku Ameríku.

Helstu fyrirtækin í Rómönsku Ameríku eru skráð á markað í Bandaríkjunum  

Hjá Rose Invest höfum við lagt áherslu á að kaupa aðeins og selja hlutabréf sem skráð eru á markaði í Bandaríkjunum – en frá hvaða heimshluta sem er ef fyrirtækin skara fram úr á sínu sviði. Ástæðurnar eru að þannig getum við verið viss um að fyrirtækin fullnægi ströngustu kröfum hvað varðar upplýsingar og eftirlit en líka að þannig fæst grundvöllur fyrir samanburði á milli fyrirtækja með grunngreiningu eftir samræmdum mælikvarða.

Alls eru 35 brasilísk fyrirtæki skráð á markaði í Bandaríkjunum. Stærstu 13 eftir veltu er að finna í töflu 3. Landsframleiðsla í Brasilíu skiptist þannig að 5,5% er í landbúnaði, 28,7% í iðnaði en 65,8% í þjónustugreinum (m.v. 2007). Á meðal helstu greina eru olíuvinnsla, fjármálaþjónusta og stálframleiðsla.


 
Tafla 3: Stærstu fyrirtæki frá Brasilíu skráð á markað í Bandaríkjunum

Mynd 1 sýnir vikukort af EWZ, kauphallarsjóðnum frá iShares (Barclays Global Investors) sem fylgir MSCI vísitölunni fyrir Brasilíu. EWZ hefur hækkað úr 30 til 35 dollurum mánuðina október til desember 2008 í um 75 dollara seint í október 2009 og er óhætt að segja að verðið hafi tvöfaldast á árinu 2009 og ríflega það. Stærstu fyrirtækin í EWZ (og þar með í MSCI vísitölunni fyrir Brasilíu) eru kunnugleg úr töflu 3, þ.e. Petroleo Bras-Pr (12,53%), Petroleo Bras (10,3%), Cia Vale do Rio Doce Pref A (8,8%), ITAU Unibanco Banco (8,2%), Cia Vale do Rio Doce-Adr (6,5%) og Banco Bradesco Pref (5,2%). Helstu greinar í vísitölunni eru efnaiðnaður (27,6%), orka (26,0%), fjármál (19,8%) og neysluvörur (7,7%). Gengi gjaldmiðla getur haft áhrif til hækkunar á verði kauphallarsjóða skráðum í dollurum ef gengi viðkomandi myntar hefur hækkað gagnvart Bandaríkjadollara.

 
Mynd 1: EWZ með 13 og 34 vikna hlaupandi meðaltölum og MACD á prósentuformi (PPO)

Argentínska kauphöllin í höfuðborginni Buenos Aires er sú minnsta af fimm helstu sem hér eru taldar og skráð félög eru 109. Átta þeirra eru líka skráð á markaði í Bandaríkjunum og sex þeirra hafa næga veltu til að komast á skrá hér. Helstu greinarnar eru fjármálaþjónusta, olía og landbúnaður.

 
Tafla 4: Stærstu fyrirtæki í Argentínu skráð á markaði í Bandaríkjunum

Í kauphöllinni í Sandiego í Chile eru samtals 237 fyrirtæki skráð og 12 þeirra eru einnig skráð á markaði í Bandaríkjunum. Sex þau stærstu er að finna í töflu 5 en SQM sem framleiðir áburð og efnavörur er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu.

 
Tafla 5: Stærstu fyrirtæki frá Chile skráð á markaði í Bandaríkjunum

Í kauphöllinni í Mexíkóborg eru skráð 385 fyrirtæki samtals að markaðsverðmæti um 300 milljarða Bandaríkjadollarar. Alls 22 þeirra eru skráð á markaði í Bandaríkjunum og sjö þau stærstu eftir veltu er að finna í töflu 6. Fáein þeirra eru vel kunn og mætti nefna America Movil, farsímafyrirtækið sem er leiðandi á sínu sviði með makaðsverðmæti um 79 milljarða dollara og Homex, byggingafyrirtækið sem selur íbúðir og er líka leiðandi á sínu sviði.

 
Tafla 6: Stærstu fyrirtæki frá Mexíko skráð á markaði í Bandaríkjunum

Mynd 2 sýnir vikukort af EWW sem er kauphallarsjóður iShares (Barclays Global Investors) sem fylgir Mexíkóvísitölu MSCI. Stærstu fyrirtækin eru kunnugleg úr töflu 6 eða America Movil með 22,9%, Cemex með 7,6%, Walmart Mexíkó með 7,5%, Fomento Economico með 5,2% og Grupo Televisa með 5%. Helstu greinar í vísitölunni eru símaþjónusta (35,6%), neysluvörur (21,4%), efnaiðnaður (14,1%) og varanlegar neysluvörur (12,8%). Þótt markaðurinn í Mexíkó hafi ekki hækkað líkt því eins mikið og í Brasilíu má þó segja að hækkun frá mars 2009 sé úr 25 dollurum í 47,5 dollara seint í október 2009. Hafa verður í huga að gengi Bandaríkjadollara hefur lækkað á þessum mánuðum og hefur áhrif til hækkunar á verði kauphallarsjóða ef gengi viðkomandi myntar hefur hækkað gagnvart Bandaríkjadollara.

 
Mynd 2: EWW með 13 og 34 vikna hlaupandi meðaltölum og MACD á prósentuformi (PPO)

Að lokum er að nefna tvö fyrirtæki frá kauphöllinni í Kólumbíu sem skráð eru í Bandaríkjunum, Bancolombia og Ecopetrol.

 
Tafla 7: Stærstu fyrirtæki frá Kólumbíu skráð á markaði í Bandaríkjunum

Í Kólumbíu eru als 85 fyrirtæki skráð í kauphöllinni og er hlutfall verðmætis hlutabréfa af landsframleiðslu um 52,4% sé miðað við ágúst 2009. Í Kólumbíu búa nærri 45 milljónir manna og er þjóðin sú þriðja stærsta í álfunni en árstekjur á mann eru aðeins 5,4 þúsund dollarar.

Asía og Kyrrahafslöndin: Yfirlit um helstu lönd og kauphallir

Asíu- og Kyrrahafslöndin verða sífellt mikilvægari í viðskiptum með hlutabréf eins og raunar í milliríkjaviðskiptum yfirleitt. Heildarverðmæti hlutabréfa í Asíu- og Kyrrahafslöndum er 32,3% af heildarverðmæti hlutabréfa á heimsmarkaði samkvæmt tölum World Federation of Stock Exchanges í ágúst sl. Til samanburðar er hlutur landanna í heimsframleiðslunni (samanlagðri vergri landsframleiðslu allra landa) 23,8%. Ekki er síður athyglisvert að fjöldi skráðra fyrirtækja samtals á þessu heimssvæði er nærri 20 þúsund en til samanburðar má hafa í huga að heildarfjöldi skráðra fyrirtækja og kauphallarsjóða í Bandaríkjunum er liðlega átta þúsund og í grennd við þrjú þúsund fyrirtæki eru skráð í hvorri kauphöll fyrir sig, Nasdaq og NYSE. Skýringin á þessum mikla fjölda í Asíulöndum er ekki síst að í kauphöllunum tveimur á Indlandi eru skráð 6.373 fyrirtæki og markaðsverðmæti þeirra er um 2,1 trilljónir (2 þúsund milljarðar) eða nærri 5% af verðmæti hlutabréfa í heiminum. Árstekjur Indverja á mann eru aðeins um eitt þúsund dollarar en 30 til 40 þúsund dollarar hjá efnuðustu þjóðunum.

 
Tafla 1: Hlutur helstu Asíu- og Kyrrahafsríkja nálgast fjórðung af heimsframleiðslu

Tafla 1 sýnir að Japan og Kína eru langmikilvægustu löndin í þessum heimshluta eftir framleiðslu og tekjum með um 8% og 7% af heimsframleiðslunni. Indland kemur næst og síðan Ástralía og Suður-Kórea en í báðum löndum er vel þróaður markaður fyrir hlutabréf. Þá er líka athyglisvert í töflu 1 hve lágar tekjur eru á mann í mörgum af fjölmennustu þjóðum heims. Mikils hagvaxtar er að vænta í þessum heimshluta á næstu áratugum eins og í Rómönsku Ameríku (sjá Rómönsku Ameríku í Kortaskólanum).

Auk Japans, Kína og Indlands eru hagkerfin í Ástralíu, Suður-Kóreu, Hong Kong, Taívan og Singapore mjög sterk en þar eru árstekjur á mann um eða yfir 20 þúsund dollarar á ári. Í öllum þessum löndum eru kauphallir sem standa á gömlum grunni með miklum fjölda skráðra fyrirtækja.
Tafla 2 sýnir verðmæti hlutabréfa í hverju ríki fyrir sig en í Japan, Indlandi og Kína eru starfandi tvær stórar kauphallir (sjá nánar í Verðmæti hlutabréfa í helstu kauphöllum í Kortaskólanum). Hér erum við aftur á móti að fikra okkur áfram til að finna helstu löndin, helstu greinarnar og síðan bestu fyrirtækin. Í þessari yfirlitsgrein er tilgangurinn að gefa yfirsýn um helstu löndin þar sem tekjur og framleiðslustig er hátt og síðan um hlutabréfamarkaðinn í þessum löndum, sjá töflu 2.

 
Tafla 2 Mesta verðmæti hlutabréfa í Asíu- og Kyrrahafslöndum er í Japan og Kína, Indlandi, Hong Kong og Ástralíu

Eins og áður kom fram er heildarverðmæti skráðra hlutabréfa í ríkjunum í töflu 2 nærri þriðjungur af heimsverðmæti hlutabréfa. Það er því mikilvægt að fylgjast vel með Asíu- og Kyrrahafsmarkaðnum. Mikið er um úrvalsgóð vaxtarfyrirtæki sem auk þess eru oft skráð líka í Bandaríkjunum, London eða Frankfurt. Sem dæmi má taka að í Bandaríkjunum eru skráð 115 fyrirtæki með heimilsfang í Kína og mörg þeirra eru í flokki úrvalsfyrirtækja. 
Auk þess geta viðskiptin í þessum heimshluta augljóslega haft áhrif á heimsmarkaðinn í heild. Asíu- og Kyrrahafsmarkaðurinn er 10 til 12 tímabeltum á undan Greenwich Mean Time. Hann opnar um fjórum stundum eftir að lokað er í Bandaríkjunum og lokar rétt í þann mund sem viðskiptin í Evrópu eru að fara í gang í morgunsárið. Nærri þriðjungur af heimsviðskiptunum er vissulega nóg til að hafa áhrif á stefnu á alþjóðlega markaðnum.
Í töflu 2 eru fáein lönd þar sem verðmæti hlutabréfa sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er vel yfir 100%. Ástralía og Malasía eru með 105% og 113% sem er ekki óvenjulegt. Hong Kong er hins vegar með yfir 900% sem merkir að verðmæti hlutabréfa er níföld landsframleiðslan. Það er líklega einstakt í veröldinni en ástæðan er sú að í Hong Kong er mikill fjöldi af kínverskum fyrirtækjum skráður í kauphöllinni.

Í síðari greinum um hlutabréf í Asíu- og Kyrrahafsríkjum verður leitað eftir helstu atvinnugreinum í helstu löndum og helstu skráðum fyrirtækjum þar og ekki síst þeim sem jafnframt eru skráð á markaði í Bandaríkjunum.


Lagalegur fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Upplýsingarnar fela ekki í sér ráðgjöf um fjármál einstaklinga eða fjárfestingaráðgjöf. Lesa allan fyrirvarann