Fréttir

28. mars 2012 18:21

Aðalfundur Landsbankans 28. mars 2012

Aðalfundur Landsbankans fyrir árið 2011 var haldinn 28. mars 2012. Dagskrá fundarins var hefðbundin. Allt bankaráð bankans var endurkjörið og tillögur sem fyrir fundinum lágu samþykktar. Enginn arður verður greiddur úr bankanum heldur leggst hagnaður hans við eigið fé líkt og undangengin ár.

Á fundinum fjölluðu formaður bankaráðs og bankastjóri um rekstur bankans á liðnu ári og gerðu grein fyrir þeim álitaefnum sem við blasa í nánustu framtíð.

Í ræðu sinni sagði Gunnar Helgi Hálfdanarson, formaður bankaráðs Landsbankans m.a. að árið 2011 hefði verið bankanum fremur hagfellt, eins og reikningar bankans sýndu.

Gunnar Helgi sagði óvissu of mikla í samfélaginu, til dæmis tengda endurútreikningi erlendra lána í kjölfar nýfallins Hæstaréttardóms. Hann nefndi ágreining um framtíðarskipan í sjávarútvegi og ótrúverðugan gjaldmiðil. Um gjaldeyrishöftin sagði Gunnar Helgi reynsluna sýna að þar sem einu sinni eru komin á höft virðist erfitt að afnema þau og því líklegt að gjaldeyrishöftin verði þjóðinni fjötur um fót um ókomin ár.

Um framtiðarskipan fjármálakerfisins sagði formaður bankaráðs Landsbankans:

"Hér á landi og um allan heim er verið að móta skipan fjármálakerfisins til framtíðar, m.a. í ljósi erfiðleika og lærdóms undangenginna ára. Þessi vinna þarf að fara fram með faglegum hætti og tryggja þarf eðlilegt samspil stjórnmála, eftirlitsstofnana og atvinnugreinarinnar sjálfrar í því sambandi. Byggja þarf upp traust á fjármálafyrirtækjunum og kerfinu öllu og haga því með sambærilegum hætti og best þekkist í okkar helstu nágrannalöndum." Um framtíð Landsbankans sagði formaður bankaráðsins m.a.: "Til að ná viðunandi lánshæfismati þarf rekstur og fjárhagur bankans að teljast í senn stöðugur og auðskiljanlegur og hann þarf að vera álitlegur fjárfestingarkostur, trúverðugur og traustur. Stefna ríkisins um eignarhald til næstu ára verður ekki síður að vera skýr. Skráning í Kauphöll er til þess fallin að styrkja stöðu bankans fyrir slíkt mat vegna aukinnar festu og aðhalds sem í henni felst. Í þessu sambandi er mikilvægt að löggjafinn setji Landsbankanum ekki íþyngjandi lagaskilyrði umfram aðra banka eins og þau tvö frumvörp sem nú eru í meðförum þingsins bera með sér. Það mun einnig hjálpa bankanum við að öðlast lánshæfismat ef fjárhagsstaða íslenska ríkisins hefur styrkst þegar það fer fram."

Allt efni um fundinn má nálgast hér á vef Landsbankans. Þar er hægt að finna nýútkomna ársskýrslu bankans, ræðu formanns á aðalfundi í heild sinni, samþykktir og tillögur. Einnig er rétt að benda á nýja skýrslu bankans um samfélagslega ábyrgð sem nú kemur út í fyrsta sinn. Hana má einnig finna á vef bankans.

Nánari upplýsingar

Síða aðalfundar 2012

18. september 2014 13:25

Hagsjá: Íbúðaverð hækkar um 2,6% á milli mánaða

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 2,6% í ágúst, sem er töluverð hækkun milli mánaða og sú mesta frá maí 2011. Íbúðaverð hefur verið á nokkru skriði upp á við og var íbúðaverð í ágúst 9,3% hærra en fyrir ári síðan. Á þessu ári hefur íbúðaverð hækkað um 6,4%.


Nánar

16. september 2014 10:12

Hagsjá: Kaupmáttur á góðri leið upp á við

Nú í júlí hafði kaupmáttur launa hækkað um 3,5% frá sama tíma í fyrra. Því hefur tekist að auka kaupmátt með litlum launabreytingum sem er vísbending um áherslur við gerð síðustu kjarasamninga hafi tekist nokkuð vel. Kaupmáttaraukningin á ársgrundvelli í júlí á þessu ári var ríflega tvöföld miðað við sama tímabili í fyrra.


Nánar

15. september 2014 10:23

Vikubyrjun: mánudagurinn 15. september

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015 var lagt fram á Alþingi. Gert er ráð fyrir 4,1 ma. kr. afgangi 2015, að okkar mati hefði mátt ætla að reynt yrði að ná meiri tekjuafgangi. Skráð atvinnuleysi í ágúst var 3,1% í samanburði við 4,0% atvinnuleysi á sama tímabili í fyrra.


Nánar