Fréttir

- Fjárfestatengsl

Reginn hf. hagnast um 138 milljónir á fyrsta ársfjórðungi

Rekstur í samræmi við áætlun

  • Rekstrartekjur Regins hf. dótturfélags Landsbankans, á fyrsta ársfjórðungi 2012 námu 849 milljónum króna, sem samsvarar 20,8% hækkun samanborið við sama tímabil árið 2011.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 507 milljónir króna samanborið við 408 milljónir króna á sama tímabili fyrir ári.
  • Hagnaður eftir skatta nam 138 milljónum króna.
  • Vaxtaberandi skuldir voru 19.498 milljónir króna í lok fjórðungsins samanborið við 19.163 milljónir króna í árslok 2011.
  • Fjárfestingareignir í lok fjórðungsins voru metnar á 27.640 milljónir króna og eiginfjárhlutfall var 29,7%.

Afkoma Regins á fyrsta ársfjórðungi ársins 2012 var í samræmi við áætlun félagsins. Rekstrartekjur námu 849 milljónum króna og þar af námu leigutekjur 695 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 507 m.kr. eða sem nemur 59,8% af rekstrartekjum og 73,0% af leigutekjum.

Eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Í lok fyrsta ársfjórðungs 2012 átti Reginn 31 fasteign. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 160 þúsund fermetrar og þar af voru 140 þúsund útleigjanlegir fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins var 94%. Stærstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og afþreyingarmiðstöðin Egilshöll í Grafarvogi.

Í lok fyrsta ársfjórðungs 2012 voru 175 leigusamningar í gildi og meðallengd þeirra er 9,7 ár. Tekjuflæði félagsins er því mjög öruggt.

Afkomueiningar Regins eru þrjár; Atvinnuhúsnæði, Egilshöll og Smáralind og helgast sú skipting af eðli starfseminnar. Leigutekjur Atvinnuhúsnæðis námu 267 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2012 og jukust um 59% frá sama tímabili 2011. Aukninguna má rekja til kaupa á eignum á árinu 2011, þar á meðal húsnæðinu að Vínlandsleið 1 á fyrsta ársfjórðungi 2011 og kaupa á fjórum fasteignum, þar á meðal Bíldshöfða 9, á öðrum ársfjórðungi 2011. Engar eignir bættust við eignasafn Regins á fyrsta ársfjórðungi 2012.

Leigutekjur Egilshallar námu 116 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2012 og stóðu nánast í stað frá sama tímabili 2011. Leigutekjur Smáralindar námu 312 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2012 og jukust um 4% frá sama tímabili 2011. Aðrar tekjur eru vegna rekstrar í fasteignum. Stærsti hluti rekstrarhagnaðar Regins fyrir matsbreytingu og afskriftir er vegna Smáralindar, 227 milljónir króna. Þá nam rekstrarhagnaður Atvinnuhúsnæðis 175 milljónum króna fyrir matsbreytingu og afskriftir og sambærileg tala fyrir Egilshöll er 76 milljónir króna.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í reikningum félagsins og voru fjárfestingareignir færðar á 27.640 m.kr. í lok fyrsta ársfjórðungs 2012. Engar breytingar urðu á fasteignasafni félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2012. Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 19.498 milljónum króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2012.

Við samanburð á milli tímabila þarf að hafa í huga að miklar breytingar hafa átt sér stað á eignasafni félagsins. Nýjar, tekjuberandi eignir hafa verið keyptar og einnig hefur tekist að auka tekjur verulega með því að ljúka uppbyggingu fjölda þróunar- og uppbyggingarverkefna. Þá þarf að taka tillit til þess að í reikningum félagsins fyrir árið 2011 gætir áhrifa af uppbyggingar- og þróunareignum sem seldar voru í árslok 2011.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri:

„Rekstur félagsins gengur samkvæmt áætlun, allar helstu kennitölur eru jákvæðar og gefa tilefni til bjartsýni. Eignasafnið er komið í þá mynd sem við höfum stefnt að og byggir einvörðungu á eignum í góðu ástandi og traustri langtímaleigu.“

Unnið að undirbúningi sölu og skráningar Regins í Kauphöll

Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að undirbúningi að sölu á Regin og skráningu hlutafjár félagsins á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Samhliða ákvörðun Landsbankans, eiganda Regins, um að skrá félagið í Kauphöll, var unnið að endurskoðun á uppbyggingu þess. Tekin var ákvörðun um að selja til Hamla ehf., dótturfélags Landsbankans, eignir sem ekki voru tekjuberandi og voru skilgreindar sem uppbyggingar- og þróunarverkefni, en þær námu um 27% af eignasafni Regins fyrir sölu. Þessi ráðstöfun var gerð m.a. til að minnka áhættu og auðvelda verðmat áður en til skráningar kæmi. Sala á uppbyggingar- og þróunareignum til Hamla átti sér stað í lok árs 2011 en uppgjör vegna viðskiptanna átti sér stað á fyrsta ársfjórðungi 2012.

Í byrjun árs 2012 var félaginu breytt úr einkahlutafélagi í hlutafélag. Samþykktir félagsins, stjórnarhættir, stefna og markmið hafa tekið breytingum til samræmis við fyrirhugaða skráningu. Þrír nýir stjórnarmenn hafa tekið sæti í stjórn Regins á þessu ári. Formaður stjórnar er Elín Jónsdóttir sjálfstæður ráðgjafi hjá Lögmönnum Bankastræti, en auk hennar settust þau Stanley Pálsson, verkfræðingur og Fjóla Þ. Hreinsdóttir, viðskiptafræðingur og sérfræðingur í reikningshaldi Landsbankans í stjórnina. Fyrir voru þær Guðríður Friðriksdóttir, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Fasteignafélags Akureyrarbæjar og Hjördís Halldórsdóttir hæstaréttarlögmaður hjá Logos. Fjórir af fimm stjórnarmönnum eru óháðir félaginu og núverandi eiganda þess.

Birting reikninga Regins

Árshlutareikningur Regins fyrir fyrsta ársfjórðung 2012 og ársreikningur fyrir árið 2011 eru aðgengilegir á vefsíðu Regins.

Fréttatilkynning í heild sinni 

Til baka

Fréttir og tilkynningar - 24. nóvember 2014 11:17

Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins varðandi verðtryggingarákvæði í skuldabréfi

Í dag veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit um skýringu tiltekinna ákvæða í tilskipun 87/102/EBE um neytendalán og tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Málið varðar lögmæti verðtryggingarákvæðis í skuldabréfi frá árinu 2008.


Nánar

Fjárfestatengsl - 06. nóvember 2014 16:10

Landsbankinn hagnast um 20 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2014

Hagnaður Landsbankans nam 20 milljörðum króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 samanborið við 22 milljarða króna á sama tímabili árið 2013. Lækkunin skýrist aðallega af hærri sköttum, en þeir hækka um 32% milli ára.


Nánar

Fjárfestatengsl - 31. október 2014 09:27

Ágúst Arnórsson ráðinn útibússtjóri Landsbankans á Egilsstöðum

Ágúst Arnórsson hefur verið ráðinn útibússtjóri Landsbankans á Egilsstöðum og tekur hann við af Arnari Páli Guðmundssyni sem nýverið var ráðinn útibússtjóri á Akureyri.


Nánar