Fréttir og tilkynningar

- Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands

Yfirlýsing frá stjórn Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands (LTFÍ)

Sérstakur saksóknari hefur tilkynnt að hann hafi hætt rannsókn á meintum brotum á fjárfestingarheimildum LTFÍ og fjögurra annarra lífeyrissjóða sem voru í umsjá LBI hf. (gamla Landsbankans) fyrir hrun.

Stjórn LTFÍ fagnar tilkynningu Sérstaks saksóknara þess efnis að embættið hafi látið af rannsókninni.

Tilefni rannsóknar embættis sérstaks saksóknara var kæra FME þess efnis að LTFÍ og fjórir aðrir lífeyrissjóðir hefðu farið út fyrir fjárfestingarheimildir á fyrsta og öðrum ársfjórðungi 2008 og ekki upplýst FME með réttum hætti um fjárfestingar sínar. Athugun starfsmanna Landsbankans hf., núverandi rekstraraðila LTFÍ, leiddi hins vegar strax í ljós að auðskýranleg mistök höfðu átt sér stað við úrvinnslu gagna sem leiddi til rangrar skýrslugjafar og þess að vikið var frá fjárfestingarstefnu.

Þrátt fyrir skýringar starfsmanna lífeyrissjóðsins og samstarfsvilja rekstraraðila hans þá sá FME ástæðu til að kæra málið til Sérstaks saksóknara. Þá vék fjármálaráðherra, að tillögu FME, stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóra frá störfum og skipaði honum umsjónaraðila í þeirra stað.  Það var gert þótt svo að hvorki LTFÍ, framkvæmdastjóri á þeim tíma eða stjórnarmenn sjóðsins væru aðilar að málinu.

Tilgangur rannsóknar Sérstaks saksóknara var að kanna hvort saknæm háttsemi hefði átt sér stað við rekstur og skýrslugjöf sjóðsins. Greinilegt er að embættið telur ekki að svo hafi verið. Rannsókn Sérstaks saksóknara, og þá sérstaklega ávörðun fjármálaráðherra um að víkja stjórn og framkvæmdastjóra frá, fylgdu hins vegar margvísleg óþægindi og álitshnekkir fyrir sjóðinn, starfsmenn og stjórnarmenn auk þess sem skipun umsjónaraðila var sjóðnum kostnaðarsöm. 

Stjórn sjóðsins mun í kjölfar ákvörðunar sérstaks saksóknara, um að hætta rannsókn málsins, skoða rétt sinn vegna þess kostnaðar sem sjóðurinn hefur þurft að bera m.a. vegna skipunar umsjónaraðila.

Til baka

Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands - 16. júní 2014 14:56

Fundargerð aðalfundar 2014

Aðalfundur Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands haldinn þann 23. maí 2014 kl 16:00 í sal Tannlæknafélags Íslands, Síðumúla 35, 108 Reykjavík.


Nánar