Pinnið á minnið

Breytt aðferð til að staðfesta greiðslur

Nú eru öll kreditkort Landsbankans komin með örgjörva og flest öll debetkort. Eins eru söluaðilar í auknu mæli að nota posa sem lesa örgjörvann og munu því korthafar staðfesta greiðsluna með pinni í stað undirskriftar, líkt og víða erlendis.

Ávinningur af breytingunni er aukið öryggi fyrir korthafa Landsbankans þegar greitt er með kortum. Með þessari breytingu mæta íslenskir aðilar kröfum alþjóðlegu kortafyrirtækjanna um öryggisráðstafanir sem innleiddar eru um allan heim til að sporna við fjársvikum skipulagðra glæpasamtaka.

Örugg kortaviðskipti

Korthafar skulu ekki láta kortið af hendi þegar greitt er fyrir vörur og þjónustu, heldur setja sjálfir kortið í posann og staðfesta viðskiptin með því að slá inn pinnið sitt í stað þess að skrifa undir. Þeir fá kvittun á sama hátt og áður.

Pinnið eru fjórir tölustafir og fylgir öllum nýjum kortum og er afhent með kortinu þegar það er sótt í Landsbankann. Korthafi ræður ekki hvert pinnið er heldur er það ákveðið af kortafyrirtækinu. Pinnið er ekki það sama og korthafi velur sjálfur með rafrænum skilríkjum.


Pinnið þarf að varðveita á öruggan hátt, ekki geyma það á miða í veskinu eða á öðrum stað þar sem þjófar gætu nálgast það. Aldrei skal segja neinum hvert pinnið er. Komist óprúttnir aðilar yfir kortið og pinnið og nota kortið, ber korthafi ábyrgð á úttektum. Leggja skal pinnið á minnið og tilkynna strax um glatað kort.

Ef korthafi man ekki pinnið getur hann nálgast það í netbanka Landsbankans en þar er aðeins hægt að sækja pinn númer fyrir Visa kreditkort og Visa Electron debetkort. Eins er hægt að hafa samband við Landsbankann og panta pinnið og sækja það í útibú nokkrum dögum síðar.


Þeir sem ekki eiga kort með örgjörva halda áfram að nota segulröndina og skrifa undir eins og áður. Það sama gildir þegar söluaðili er ekki með posa sem les örgjörvann þótt korthafi eigi örgjörvakort.

Ef rangt pinn númer er slegið þrisvar sinnum lokast kortið. Hægt er að enduropna kortið í hraðbönkum Landsbankans ef um er að ræða kreditkort með því að slá þar inn rétt pinn en hægt er að nálgast rétt pinn í netbankanum. Sé korthafi staddur erlendis og kreditkortið lokast er hægt að enduropna kreditkort með því að taka út pening í hraðbönkum.


Ef korthafi man ekki pinnið getur hann enn sem komið er staðfest viðskiptin með því að ýta á græna takkann á posanum og skrifað undir kvittunina. Starfsmaður verslunar þarf þá að sjá kortið til að bera saman undirskriftir á korti og á kvittun.

Spurt og svarað

 • Hvað breytist þegar greitt er með korti?
 • Get ég ekki lengur greitt með korti sem hefur eingöngu segulrönd?
 • Hvers vegna er ný aðferð við að samþykkja greiðslur með kortum?
 • Má korthafi láta starfsmann í verslun fá kortið?
 • Fæ ég ennþá kvittun úr posa?
 • Er hægt að hringja í Landsbankann og fá pinnið upp gefið?
 • Hvað gerist ef rangt pinn er slegið inn of oft?
 • Ef korthafi man ekki pinnið, getur hann greitt með örgjörvakorti?
 • Virkar örgjörvakortið alls staðar?
 • Getur korthafi valið sér pinn sjálfur?
 • Þarf korthafi að halda pinninu leyndu fyrir öðrum?
 • Ef korthafi glatar korti með örgjörva, þarf að tilkynna það glatað eins og áður?
 • Ef örgjörvakortinu er stolið, getur einhver annar þá greitt með því?
 • Ber korthafi ábyrgð ef pinninu er stolið og greitt er með kortinu?
 • Ef korthafi man ekki pinnið, hvar er hægt að nálgast það?
 • Hvar er hægt að fá örgjörvakort?
 • Er kortið mitt með örgjörvarönd?
 • Er pinn debetkortsins það sama og er á rafræna skilríkinu?

Kynningarmyndband

Hleð inn myndbandi