Dagbók Eignastýringar

Dagbókinni er ætlað að upplýsa lesendur um framvindu á innlendum og erlendum fjármálamarkaði. Megináhersla er á þá þætti sem hafa áhrif á ávöxtun verðbréfa og stýringu eigna innanlands og utan. | Nánar um Dagbók Eignastýringar

-

Martin Feldstein: Skjótur bati í þjóðarbúskapnum ólíklegur, vestan hafs eða austan

Dr. Martin Feldstein, prófessor í hagfræði við Harvard háskólann og heiðursforseti National Institute of Economic Research í Bandaríkjunum, hélt erindi á opinni ráðstefnu Landsbankans, "Hvert stefnir?" fimmtudaginn 1. mars 2012. Dr. Feldstein rakti stöðu og þróun efnahagsmála í Bandaríkjunum og í Evrópusambandinu og lýsti horfum á næstu misserum eins og þær blasa við honum. Dr. Feldstein er í hópi virtustu núlifandi hagfræðinga og á meðal þeirra sem mesta reynslu hafa við stjórn efnahagsmála. Hann hefur varið kröftum sínum alla starfsævina ekki síður í opinbera stjórnkerfinu en á háskólasviðinu. Hann  hefur verið prófessor við Harvard háskólann í um 40 ár og efnahagsráðgjafi Bandaríkjaforseta, allt frá Reagan á árunum 1981 til 1989 til Obama, núverandi forseta. Ræðu dr. Feldsteins og grein í ráðstefnuritinu er að finna hér á Umræðunni.

1 Heimsvísitala Dow Jones staldrar við nálægt lággildum ársins 2011 og safnar orku (eftirspurn) til að ráðast upp í gegnum mótstöðu sem liggur í bandinu 255 til 275. Nærri 8% eru enn að hágildi frá apríl 2012.

Það verður naumast sagt að geislað hafi af bjartsýni í viðhorfum dr. Feldstein um framtíðina. Telur hann að hagvöxtur í Bandaríkjunum árið 2012 verði á bilinu 2 til 3% en líklega nær neðri mörkum og jafnvel enn minni. Ástæður eru að miklu leyti að rekja til fjármálakreppunnar frá 2007 og 2008 og vanda íbúðamarkaðsins sem honum er tengdur. Hagvöxtur í Bandaríkjunum á fjórða fjórðungi 2011 er þó 3% en að nokkru tilkominn vegna birgðasöfnunar.

Ritari dagbókar er heldur bjartsýnni en dr. Feldstein fyrir hönd eimreiðar heimsbúskapsins, en hér kann að gæta mismunar í viðhorfi: er glasið hálftómt eða er það hálffullt? Svo er að sjá að mikilvæg lönd séu að rétta úr kútnum eftir snögga en djúpa dýfu árið 2011. Bandaríkin eru í lykilhlutverki á 21. öldinni rétt eins og lengst af á síðustu öld. Útflutningur nemur um tíunda hluta af VLF en það er nægilegt til að aukin eftirspurn frá Asíu- og Kyrrahafslöndum glæðir bæði eftirspurn og framleiðslu. Nýjustu hagtölur frá Bandaríkjunum eru að jafnaði yfir væntingum hagfræðinga og glasið kann að vera hálffullt fremur en  hálftómt.

Er Efnahagssáttmáli Evrópu merkingarlaus?

Dr. Feldstein er varkár í orðum um framvindu í þjóðarbúskap Bandaríkjamanna en beinlínis neikvæður gagnvart ráðahagi leiðtoga í Evrópu vegna skuldavanda ríkja sunnan til í álfunni. Ritari dagbókar er ekki fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu en gæta verður hlutlægni við greiningu í efnahagsmálum. Leiðtogar helstu ríkja á evrusvæðinu hafa tekið af festu á aðsteðjandi skuldavanda ekki síður en ráðamenn í Bandaríkjunum brugðust við skjótt og hratt haustið 2008 þegar hrun fjármálakerfisins blasti við. Grikkland er ekki mikilvægara í efnahagslegu tilliti hlutfallslega í Evrópusambandinu en fjármál Álftanesbúa eru Íslendingum. Tókst þó að leysa bráðasta vanda Álftaness hávaðalítið, nærri því hægt og hljótt – þótt auðvitað hvíli miklar skuldir þar áfram.

Leiðtogar evruríkjanna tóku af festu á vanda Grikklands, Ítalíu, Spánar, Írlands og Portúgals, allt á tiltölulega fáum mánuðum, en íbúar þeirra ríkja eiga áfram við niðurgreiðslu skulda að etja næsta áratug rétt eins og Íslendingar. Við lausn á vanda evruríkja voru í leiðinni leiðréttir þættir í stjórnskipulagi sem betur mega fara. Þess vegna verður auðveldara að beita hagstjórn á næstunni og minni hætta er á óförum eins og leiða til núverandi skuldavanda. Í Evrópu er Þýskaland eimreiðin í efnahagslífinu og gengur vel rétt eins og búskapur Bandaríkjamanna á heimsvísu. Vafalaust verður hagvöxtur Evruríkjanna dræmur árið 2012, hugsanlega 1 til 2%, en betri horfur eru eftir það.

Heimsvísitala hlutabréfa býst til hækkunar í gegnum viðnám frá 255 til 275

Mynd 1 hér að framan sýnir heimsvísitölu hlutabréfa á vikukorti frá miðju ári 2010. Hún er á líkum slóðum og þegar mikil hrina lækkunar hófst í lok júlí 2011 og síðan ógnarsala sem leiddi til bjarnarmarkaðs um skamma hríð. Eitt skrítnasta fyrirbæri í tæknigreiningu er svonefnd T-myndun (e. T-Formation). Einfalt er að skilja T-myndun en tíma tekur að trúa á fyrirbærið. Dæmi um T-myndun er á vikukorti heimsvísitölunnar frá byrjun ágúst 2011 til mars 2012. Ekki er um nákvæma spegilmynd í ferli vísitölunnar að ræða þennan tíma um miðju tvöfalda botnsins en hún er nærri lagi. Í hrunvikunni miklu fyrst í ágúst 2011 lækkar vísitalan úr 258 í 236. Hægra megin í T-mynduninni hefur tekið lengri tíma en eina viku að ná svo mikilli hækkun aftur, sjö vikur nú þegar og þó lokar vísitalan í tæplega 255 föstudaginn 3. mars 2012 og ekki alveg 258.

Í gluggum ofan við og neðan við vikukortið á mynd 1 eru hlutfallsvísitölur Evrópu, Wall Street og Asíu og Kyrrahafslanda. Lóðrétta punktalínan markar snúningspunkt þar sem Evrópa og Asía taka að sækja í sig veðrið en Wall Street gefur aðeins eftir í lok mikillar styrkingar árið 2011 og einkum á síðari hluta þess árs. Síðustu fáar vikur hefur þó ríkt jafnvægi á milli helstu kauphalla; hlutfallslínur eru nálægt því láréttar, hallalausar. Það er ekki vandi okkar í dagbókinni að spá fyrir um hækkun eða lækkun í framtíðinni, aðeins er hægt að leiða líkur að því  hvað líklegtt er að gerist á næstunni í ljósi nýjustu gagna.

Tvær ástæður eru fyrir því að líklegra er en ekki að hækkun haldi áfram. Sú fyrri er að hækkunarleggurinn 2012 hefur náð til allra helstu kauphalla og styrkur verið vaxandi utan Wall Street. Sú síðari er að lítið er um losunardaga; þ.e. daga þar sem lækkun er í gangi með mikilli veltu svo að augljóst er að fagfjárfestar eru á ferðinni. Á Wall Street er staðan þannig að losunardagar eru þrír síðustu fimm vikur á New York Stock Exchange en tveir hjá S&P 500 og Nasdaq Composite. Hættuástand telst ekki skapast fyrr en fjöldi losunardaga síðustu fjórar til fimm vikur er fjórir til fimm eða fleiri.

Hver er staðan? Róleg vika er að baki og heimsvísitala myndar doji

Á bak við hógværar breytingar á verði hlutabréfa í vikunni til föstudags 2. mars 2012 eru þó breytingar í litakerfi Eignastýringar sem enn vísa í átt til frekari hækkunar. Alls fjórir þættir hlutabréfamarkaðs fara á grænt ljós eftir gult, Asíu og Kyrrahafsvísitalan, Indland, Singapore og Rússland. Kína fer á gult ljós en gullnámufyrirtæki í Bandaríkjunum fara aftur á rautt ljós. Það síðastnefnda er ekki mikið áhyggjuefni og felst skýringin í því að 13 og 34 vikna meðaltöl liggja lárétt og síðan varð 3,2% lækkun á verði gulls í víkunni sem dró með sér hlutabréf í gullnámufyrirtækjum. Mikilvægt er að ekkert rautt ljós er eftir í Asíu og aðeins Spánn er eftir á rauðu ljósi í Evrópu. Asíu og Kyrrahafsvísitalan er komin á grænt ljós og af heimshluta- og heimsvísitölum er aðeins Evrópuvísitalan eftir á gulu ljósi.

Bestu hækkunartölur vikunnar eru Indónesía, Taiwan og Thailand í Asíu með 2,9, 1,9 og 1,7% hækkun (löndin með mestan hlutfallslegan styrk kominn í leiðandi hlutverk á nýjan leik), og í Evrópu er 2,2% hækkun á Ítalíu og síðan er 2,8% hækkun í Brasilíu. Hvergi gætir alvarlegrar lækkunar nema hjá gullnámufyrirtækjum en sú lækkun á sér skýringar að hluta á gjaldeyris- og hrávörumarkaði eins og áður var nefnt.

Tafla 4x12 Síðustu tvær vikur (áttunda og níunda) til föstudags 2. mars 2012 eru jafnvægisvikur. Verð á hlutabréfum leitar til hækkunar og hvergi er að vinna mikil frávik sem bent geta til þess að snúningur til lækkunar sé á næsta leiti.

Lækkun gullverðs á sér þá skýringu að gengi dollara tekur að hækka á gjaldeyrismarkaði. Þá hækkun er að rekja að hluta til orða Bernankes seðlabankastjóra á fundi með þingnefnd þar sem hann dregur úr mikilvægi 3% hagvaxtar í Bandaríkjunum á fjórða fjórðungi 2011 (eins og gerði einnig Martin Feldstein á opnum fundi Landsbankans fimmtudaginn 1. mars 2011), auk þess sem hann lýsti áhyggjum yfir því hve lítillar eftirspurnar gætir á vinnumarkaði. Ekki er hægt að benda á neitt óvænt í málflutningi seðlabankastjórans sem vel upplýstir fjárfestar vissu ekki fyrir og flökt á sér því einnig aðrar skýringar.

Hugmyndir um beitingu nafnverðs VLF við stjórn peningamála ryðja sér til rúms

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 1. mars 2012 er að finna fréttaskýringu undir heitinu Bylting í stjórn peningamála í augsýn? en höfundur er Kristján Torfi Einarsson. Raktar eru afar athyglisverðar hugmyndir sem komið hafa fram árin 2010 og 2011 og bera enska heitið Nominal GDP Targeting og kallast á íslensku NVLF eða markmið um nafnvirði vergrar landsframleiðslu. Uppruna kenningarinnar er að leita til skrifa bandaríska hagfræðingsins Scotts Sumner við Bentley háskólann í Massachusettes árið 2009 þar sem hann mælti með því að bandaríski seðlabankinn tæki upp NVLF markmið á vefnum www.themoneyillusion.com. Brátt bættust fleiri hagfræðingar í umræðuhópinn og nú má telja að um heildstæða kenningu við stjórn peningamála sé að ræða.

Mynd 2 Hækkun VLF að nafnvirði var 10% og hærri samfellt í fimm ár 2004 til og með 2008. Ekki er vafa bundið að svo mikil árleg hækkun er of mikil. Erfiðara kann að reynast að finna hvar á bilinu 5 til 9% eðlilegt markmið liggur í tilviki íslenska seðlabankans.

Þegar NVLF markmiðssetningu er beitt er að minni hætta á að seðlabankar einblíni um of á verðbólgumarkmið og kæfi þannig efnahagsbata áður en hann kemst á réttan kjöl. Hér er í reynd talað til evrópskra seðlabanka (að þeim íslenska meðtöldum) þar sem lög mæla fyrir um verðbólgumarkmið eingöngu. Í Bandaríkjunum ber seðlabanka að líta til atvinnustigs ekki síður en verðbólgu – án þess þó að formlega hafi verið sett markmið um nafnvirði VLF við stýringu svo að vitað sé til. Annar kostur er að seðlabanki verður skjótt var við þegar nafnvirði landsframleiðslu sýnist ekki stefna í að ná markmiði ársins og er þá auðvelt að beita slökun í peningastefnu – án þess að verðbólgumarkmið setji of þröngar skorður.

Þriðji kosturinn kann að vera að nafnvirði VLF er auðveldara að mæla en raunvirði VLF og er þess vegna stýristærð sem gott er að miða við. Mæling verðbólgu er jafnan umdeild þar sem skilgreining verðbólgugrunns er ekki einhlít (á að taka hækkun olíuverðs með, á að taka breytingar á húsnæðisverði með o.s.frv.)

Án þess að taka afstöðu til þess hve mikla kosti aðferðin hefur við stjórn peningamála á Íslandi er án efa að umræða um kosti og galla NVLF markmiðs er af hinu góða. Nafnvirði landsframleiðslu hér á Íslandi hefur sjaldan verið í hávegum haft, hugsanlega vegna þess hve verðbólga er oft mikil þannig að breytingar NVLF á milli ára verða háar. Mynd 2 sýnir prósentubreytingar NVLF frá árinu 2000 ásamt landsframleiðslunni sjálfri á verðlagi hvers árs í milljörðum króna (áætlun eftir árið 2010).

Hækkun hlutabréfa árið 2012 nær til mikilvægra kauphalla um víða veröld

Hlutabréfamarkaðurinn er hluti af þessu flókna samspili raunhagkerfis og stærða sem jafnan eru mældar á verðlagi hvers tíma. Hækkandi verð á hlutabréfum byggist á vaxandi hagnaði fyrirtækja og almennt á því trausti sem fjárfestar bera til jákvæðrar framvindu á næstu árum. Hlutabréf eru leiðandi hagvísir og almennt er talið að fjárfestar lesi í markaðinn sex til tólf mánuði fram í tímann. Hér á eftir fylgir yfirlit um breytingu hlutabréfaverðs í Evrópulöndum, í Asíu og í BRIC ríkjunum sem sköruðu fram úr á síðasta áratug vegna mikils hagvaxtar. Talið er að þau geti verið leiðandi á heimsvísu síðar á þessari öld vegna stærðar sinnar og mannfjölda. Hækkandi hlutabréfaverð á árinu 2012 vísar til þess að væntingar fjárfestar eru jákvæðar og getur bent til þess að heimsbúskapurinn sé að blómstra meira en kemur almennt fram í hagspám alþjóðastofnana.

Mynd 3 sýnir vísitölur hlutabréfa í Þýskalandi, Bretlandi og á Ítalíu, auk Evrópuvísitölunnar. Í Þýskalandi er hækkun frá lággildi í september 2011 33% en þar lækkuðu hlutabréf líka mjög mikið í ógnarsölu frá síðustu dögum júlí 2011. Aðeins 8% vantar nú til að DAX vísitalan nái hæsta verði ársins 2012. Í London vantar FTSE vísitöluna aðeins 3% til að ná hágildi síðara árs en Evrópuvísitöluna vantar 16% þrátt fyrir 21% hækkun frá lággildi í september 2011. Þar munar miklu um veikari kauphallirnar í Suður-Evrópu. Spánn er veikasti hluti markaðsins og sá eini af 24 í efri hluta töflunnar 4,12 sem enn er á rauðu ljósi.

Mynd 3 Hlutabréf á Ítalíu, einum veikasta hluta Evrópumarkaðs, hafa hækkað um 25% frá lággildi í september 2011. Verðið þarf að hækka um 40% til að ná hágildi 2011.

Asíu og Kyrrahafslöndin á mynd 4 eru á meðal þeirra sterkustu á fyrstu mánuðum ársins 2012. Í Thailandi og Indónesíu sem líka sýndu mikinn hlutfallslegan styrk á árinu 2011 varð lækkun á síðari hluta þess árs minni en víðast annars staðar. Hlutabréf í Thailandi liggja 3% ofan við hágildi 2011 við lokun föstudags 2. mars 2012 en hlutabréf í Índónesíu eiga 5% eftir að því marki. Í Suður-Kóreu eru 7,4% eftir að hágildinu 2011 en 8,2% í Singapore.

Mynd 4 Kauphallirnar í Thailandi, Indónesíu, Singapore og Suður-Kóreu eru á meðal þeirra sterkustu í Asíu og Kyrrahafslöndum. Hlutabréf í Thailandi eru um 3% ofan við hæsta gildi ársins 2012.

Mynd 5 Hlutabréf í BRIC ríkjunum, Braslíu, Rússlandi, Indlandi og Kína, hafa tekið hressilega á því frá síðari hluta desember 2012. Kortin sýna að hlutabréf í Rússlandi færast á grænt ljós í 9. viku og í Kína á gult (verð færist yfir rauðu 34 vikna línuna).

Í framvindu hlutabréfamarkaðs árið 2012 er þó hækkun hlutabréfa í BRIC löndunum ekki síst ánægjuleg. Brasilía, einn sterkasti markaður veraldar, lækkaði mikið á árinu 2011 eins og vikukortið efst til vinstri sýnir en hefur nú leiðrétt þá lækkun að mestu og á eftir 6,6% að hágildi frá nóvember 2010. Rússland er sveiflukenndari markaður en þar varð hækkun frá miðju ári 2010 til loka apríl 2011 50 til 60%. Eftir það tók við lækkun sem nam allri þeirri hækkun svo að lággildi áranna 2010 og 2011 eru á líkum stað við gildið 1300. Hækkun á árinu 2012 til loka föstudags 2. mars er sú mesta á 36 þáttum alþjóðlegs hlutabréfamarkaðs í töflunni 4x12 eða 25,7%. Hlutabréf á Indlandi hafa hækkað um 14% á árinu 2012 en tæp 12% í kauphöllinni í Shanghai í Kína. Þar eru heil 28% eftir að síðasta hágildi sem raunar er í lok júlí 2009.


Lagalegur fyrirvari

  • Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Upplýsingarnar fela ekki í sér ráðgjöf um fjármál einstaklinga eða fjárfestingaráðgjöf. Lesa allan fyrirvarann