Dagbók Eignastýringar

Dagbókinni er ætlað að upplýsa lesendur um framvindu á innlendum og erlendum fjármálamarkaði. Megináhersla er á þá þætti sem hafa áhrif á ávöxtun verðbréfa og stýringu eigna innanlands og utan. | Nánar um Dagbók Eignastýringar

-

Hækkun á verði hlutabréfa heldur áfram um allan heim, gengi dollara lækkar

Ræða Bernankes seðlabankastjóra Bandaríkjanna eftir fund peningamálanefndar miðvikudaginn 25. janúar vekur gleði á meðal fjárfesta. Hlutabréf á Wall Street rjúka upp síðari hluta dags og fyrri hluta fimmtudags og S&P500 nær fyrsta hágildi ársins 2012 í 1333,47. Bernanke telur að vextir seðlabankans verði óbreyttir um langa hríð, til miðs árs 2013 og jafnvel til 2014. Nýjar tölur sýna að hagvöxtur í Bandaríkjunum á fjórða fjórðungi 2011 er 2,8% en 1,7% á árinu öllu. Árið 2010 er hagvöxtur þar 3% og spár eru um 2,5% fyrir árið 2012.

Líklega koma áhrif af ræðu seðlabankastjóra skýrast fram í gullverði og á gjaldeyrismarkaði þótt hugsanlega sé það ekki jákvætt í augum hans. Gengi dollara lækkar um 1,7% í vikunni til föstudags 27. janúar og verð á gulli og silfri hækkar um 4,3% og 5,6%. Hlutabréf í gullnámufyrirtækjum rjúka upp um 9,5% eftir 3,5% lækkun í vikunni á undan. Dollari og hlutabréf á alþjóðlegum markaði virðast hafa tekið upp neikvæðu fylgni sína á nýjan leik eins og mynd 3 sýnir hér á eftir.

 

 

Mynd 1 Nasdaq Composite, vísitala tæknifyrirtækja á Wall Street, hækkar um 7,8% fyrstu fjórar vikur 2012. Aðeins 2% eru eftir að hágildi ársins 2011 (sjá töflu 1).

Vikukort af Nasdaq á mynd 1 sýnir vel snúning í síðustu viku 2011 og hækkun fyrstu fjögurra vikna 2012. Neðan við kortið er hlutfallslegur styrkur Nasdaq á móti S&P 500. Hann eykst frá miðjum desember 2011 eftir að Nasdaq hefur farið halloka gagnvart vísitölu stórfyrirtækjanna frá september það ár. Ofan við kortið er RSI (14) sem sýnir stöðu vísitölunnar í samanburði við fyrri gildi á vikukorti. RSI gildið er 59 og getur brotist upp úr viðnámsblokk á milli 50 og 60 á næstu dögum. Á þann mælikvarða er nægilegt rými fyrir Nasdaq Composite til að skjótast yfir hágildið 2011 í nýjar hæðir 2012.

Hlutabréf í Evrópu styrkjast og Grikkir reyna samninga um niðurfellingu skulda

Hækkun á verði hlutabréfa á Wall Street er vel viðunandi eins og framangreindar tölur sýna en hlutabréf í Asíu og Evrópu hafa þó styrkt stöðu sína gagnvart þeim fyrstnefndu.

Mynd 2 Dax vísitalan er leiðandi á Evrópumarkaði og hækkar um 11% á fyrstu fjórum vikum 2012. Enn eru 13 til 14% eftir að hágildi 2011 þann 29. apríl.

Vikukort á mynd 2 sýnir hvernig DAX skýst yfir viðnám (niðurhallandi brotna línan) um síðustu áramót og hefur nú hækkað í sex vikur samfellt. Takið eftir að DAX skýst án fyrirhafnar yfir hágildi frá október 2011 svo og 34 vikna vegið meðaltal. Skammt er nú uns Þýskaland færist á grænt ljós, líklega tvær vikur fremur en ein.

Kauphöllin í Frankfurt er leiðandi á vettvangi evrópskra kaupahalla rétt eins og Merkel Þýskalandskanslari veitir forystu á stjórnmálasviði Evrópusambandsins. Þessu er óhætt að halda fram í ljósi þeirra staðreyndar að Evrópuvísitalan hækkar nú meira en heimsvísitala hlutabréfa; hlutfallslegur styrkur Evrópuhlutabréfa eykst á heimsvísu eins sést í glugga neðan við kortið á mynd 2. Tekið skal fram til að forðast misskilning að höfundur þessara orða er ekki fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hér er um greiningu á hlutabréfum á alþjóðlegum markaði að ræða og til að njóta fyllsta ávinnings af hækkun þeirra hlutabréfa er nauðsynlegt að fylgjast grannt með hlutfallslegum styrk. Styrkur kauphalla í Asíu- og Kyrrahafslöndum er einnig að aukast á gagnvart heimsvísitölu.

Evru-dollaraás breytir um stefnu á fyrstu vikum 2012

Engum vafa er undirorpið að gengi evru gagnvart dollara nær hágildi í 1,4854 gagnvart dollara í lok apríl 2011 og fer síðan lækkandi allt það ár. Af fréttum í engilsaxneskum fjölmiðlum mætti ætla að gengi evru gagnvart dollara stefni í 1,00 á allra næstu vikum. Á vikukorti á mynd 3 sést að stefna evru-dollaráss snýst í þriðju viku janúar 2012.

 

Mynd 3 Gengi evru gagnvart dollara frá miðju ári 2010. Hágildi er í 1,4554 um mánaðamótin apríl/maí 2011 og eftir það tekur við fall evru á móti dollara.

Snúningurinn er við gildið 1,26 og á líkum slóðum og annar slíkur varð haustið 2010. Þar myndast stuðningur sem stöðvar frekari lækkun í annarri viku 2012. Hve lengi núverandi hækkun evru gagnvart dollara varir árið 2012 veit enginn. Til lengdar ræðst gengi gjaldmiðla af því hve mikil prentun þess gjaldmiðils er umfram framleiðsluaukningu á gjaldmiðilssvæðinu. Martin Feldman prófessor við Harvard háskólann í Massachusettes og fyrrum ráðgjafi Reagans Bandaríkjaforseta í efnahagsmálum telur í nýlegu viðtali við CNBC að frekari lausung í peningamálum Bandaríkjamanna sé ekki til ábata í efnahagsmálum. Bandaríkjamenn hafa ugglaust gengið lengst á meðal iðnríkja í því að leysa vanda í kjölfar samdráttarskeiðsins frá 2007 með því að slaka á aðhaldi í peningamálum – kaupa ríkisskuldabréf á markaði fyrir nýprentaða peninga.

Þjóðverjar sem lifðu óðaverðbólgu áranna eftir fyrri heimsstyrjöld kenna börnum sínum kynslóð fyrir kynslóð að aðhaldssöm peningastefna er nauðsynleg til að halda verðlagi stöðugu til langs tíma litið. Aðhald og íhaldssöm stefna í peningamálum hefur á stundum haldið aftur af hagvexti í Þýskalandi í samanburði við önnur lönd; verðbólgumarkmið hefur verið sett á oddinn. Þessi langtímahugsun Þjóðverja, til orðin í biturri lífsbaráttu fyrir hartnær eitt hundrað árum, kemur þeim til góða í umróti efnahagsmála eftir fjármálahrun á Vesturlöndum 2007 til 2008. Verðbólga er peningalegs eðlis. Gjaldmiðill heldur ekki verðgildi sínu til lengdar nema aukning peningamagns sé í samræmi við aukningu framleiðslu á gjaldmiðilssvæðinu.

Á mynd 4 sést að neikvæð fylgni dollara og alþjóðlegra hlutabréfa kann að vakna á nýjan leik. Lesendur dagbókar Eignastýringar minnast vangaveltna af þessu tilefni í dagbókinni þann 9. janúar 2012. Vikukort af S&P 500 og meðalgengi dollara árin 2009 til 2012 sýnir neikvæða fylgni sem ríkt hefur lengst af þessi árin – þar til í nóvember og desember 2011. Frá annarri viku 2012 hefur meðalgengi dollara lækkað á alþjóðlegum markaði en gengi hlutabréfa hækkað víðs vegar um heiminn. Best er að orðlengja ekki frekar um þessa áhugaverðu breytingu á gjaldeyrismarkaði þrátt fyrir mikilvæg áhrif hennar á hlutabréfamarkaði. Framvinda skýrist á allra næstu vikum.

 

Mynd 4 Fylgni dollara og S&P 500 vísitölu hlutabréfa í Bandaríkjunum hefur lengst af verið neikvæð síðustu þrjú ár (raunar í meira en áratug). Nýjustu tölur benda ekki til breytingar þar.

Hvað er í stöðunni? Hlutabréf, hrávörur, gull og silfur hækka með lækkandi dollara

 

Tafla 1 Hækkun á verði hlutabréfa nær til kauphalla vítt og breitt um heiminn. Mest hækka hlutabréf í gullnámufyrirtækjum og hlutabréf í Rússlandi.

Hvernig sem því víkur við er eins og ræða Bernankes seðlabankastjóra miðvikudaginn 25. janúar 2012 eftir fund peningamálanefndar hafi hrundið af stað hækkun á verði hlutabréfa, hrávöru, eðalmálma og olíu en sölu á dollara á móti. Það er í rökréttu framhaldi af boðskapi ræðunnar. Stýrivextir haldast nærri núlli fram á árið 2013 eða lengur. Til greina kemur að beita enn frekari tilslökunum í peningamálum (e. QE3, quantitative easing III) ef til þess kemur að örva þurfi atvinnustarfsemi og hagvöxt. Hljómar í andstöðu við hinn þýska boðskap um íhaldssemi í peningamálum og stöðugt verðlag. Hafa verður í huga að lög um bandaríska seðlabankann fela í sér að taka tillit til bæði atvinnustigs, eftirspurnar í hagkerfinu og stöðu peningamála við ákvörðun stýrivaxta. Í lögum um seðlabanka í Evrópu er að jafnaði aðeins eitt hlutverk: að halda verðlagi stöðugu (verðbólgu innan tiltekinna marka).

Tafla 2 Alls 28 litabreytingar til hins betra hafa orðið í litakerfi Eignastýringar í annarri, þriðju og fjórðu viku 2012.

Hver sem ástæðan er hefur verð á hlutabréfum á alþjóðlegum markaði hækkað samfellt frá síðustu viku desember 2011. Breytingar í litakerfi Eignastýringar sem sýndar eru í töflu 2 frá rauðu ljósi á gult og af gulu á grænt eru tólf í annarri viku 2012, tíu í þriðju vikunni og sex í fjórðu viku. Síðastnefndu breytingarnar eru í dálkinum lengst til hægri í töflu 2. Ljóst er að samtals 28 breytingar í átt til hins betra fela í sér vísbendingu um snúning á stefnu hlutabréfa á alþjóðlegum markaði frá lækkun til hækkunar.

Gengi dollara hefur lækkað um 2,3% frá áramótum gagnvart viðskiptamyntum að meðaltali og gengi evru hefur hækkað í ölduróti fjölmiðla og langri röð svokallaðra neyðarfunda Evrópuleiðtoga um 1,9% frá byrjun árs 2012 til föstudags 27. janúar. Heimsvísitala hlutabréfa hefur hækkað um 5 til 6% á sama tíma. Þessar staðreyndir færa okkur heim sanninn um að fjárfestar á alþjóðlegum markaði láta ekki fréttir í fjölmiðlum og þaðan af síður stjórnmálamenn hafa áhrif á ákvarðanir sínar. Þeir lesa merki um viðskipti af fjármálamarkaði, viðskipti þar sem þátttakendur eru þeir allir í heiminum sem búa yfir bestu upplýsingum sem fáanlegar eru á hverjum tíma. Þeir taka ákvarðanir eftir væntingum og lesa að jafnaði merki markaðsins sex til tólf mánuði fram í tímann.

Þau merki sem lesin eru af alþjóðlegum markaði hlutabréfa eru ekki í samræmi við barlóm stjórnmálamanna og væntingar alþjóðastofnana um minni hagvöxt á næstu misserum en áður var talið. Hugsanlega er spurningin um hvort glasið er hálftómt eða hálffullt. Sannleikurinn er sá að hagnaður fyrirtækja er oft ekki minni þegar spenna í efnahagsmálum er ekki of mikil. Stærri hluti afraksturs starfsemi þeirra rennur þá til fjármagns og minni til vinnuafls þar sem framboð á þeim markaði er meira en eftirspurn svo að laun haldast í jafnvægi.Vextir eru auk þess afar lágir í sögulegu samhengi. Fyrir alþjóðlega fjárfesta sem haga viðskiptum sínum eftir stefnu markaðsins gildir að ,,the trend is your friend... until it ends“. Enginn veit á þessari stundu hve langur núverandi hækkunarleggur á alþjóðlegum markaði hlutabréfa reynist – en mikilvægt er að nýta hækkunina á meðan hún lifir til að byggja upp eignir.

Dow Theory, alþjóðavæðing og hlutabréfamarkaður á 21. öldinni

Charles H. Dow, stofnandi Wall Street Journal og annar af stofnendum Dow Jones fyrirtækisins sem rekur og birtir vísitölur undir því nafni á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði,
ritaði merkar ritstjórnargreinar í blað sitt fyrir og um aldamótin 1900. Dow lést árið 1902 en skrif hans urðu síðar, og í höndum eftirmanna hans, að svonefndri Dow Theory um eðli hlutabréfaviðskipta. Kenningar Dows hafa staðist tímans tönn. Enn í dag eru þær á meðal þess besta sem hægt er að reiða sig á í viðskiptum með alþjóðleg hlutabréf þótt þær hafi orðið til fyrir meira en 110 árum.

Kenningar Dows eru í sex hlutum og einn þeirra segir að til að staðfesta stefnu markaðsins þurfi bæði Dow Industrials og Dow Transports vísitölurnar að stefna í sömu átt. Dow Industrials mælir breytingar á verði hlutabréfa í framleiðslufyrirtækjum en Dow Transports mælir breytingar á hlutabréfaverði flutningafyrirtækja. Hugsun Dows var sú að í heilbrigðu efnahagskerfi þurfa framleiðslufyrirtæki að starfa eðlilega og með hagnaði og hlutabréfaverð þeirra að haldast sterkt. Til að koma framleiðsluvörum á markað og til neytenda þarf flutninga og til að kerfið í heild sé heilbrigt og eðlilegt þurfa því hlutabréf í flutningafyrirtækjum einnig að vera sterk.

Í tímans rás hefur kenning Dows verið víkkuð út þótt enn sé hún notuð í Bandaríkjunum á upprunalegu formi. Alþjóðavæðing felur í sér að oft eru vörur framleiddar í öðru landi en þær eru hannaðar og síðan seldar til neyslu. Bylting í upplýsingatækni og flutningum á síðustu þremur áratugum felur í sér aukið mikilvægi þessara greina.

Í dagbók Eignastýringar er gengið svo langt að líta til hlutabréfamarkaðs í öllum helstu kauphöllum til að greina og fá staðfestingu á stefnu markaðsins. Rökin eru í senn að alþjóðlegur hlutabréfamarkaður er ein heild sem er í gangi nærri 24 tíma hvern virkan dag, svo og að viðskipti með vörur og þjónustu eru alþjóðleg. Flutningar og upplýsingatækni færa helstu lönd og heimsálfur saman til að mynda eina heild.

 

Mynd 5 Heimsvísitala Dow Jones og hlutfallslegur styrkur hlutabréfa í þremur heimsálfum, Evrópu efst en Bandaríkjanna og Asíu og Kyrrahafslanda neðan við vikukortið.

Mynd 5 sýnir heimsvísitölu Dow Jones á vikukorti frá maí 2010. Eftir hágildi í apríl 2011 tekur við lækkun eins og kunnugt er og síðan lægsta lággildi í byrjun október. Eftir það hefur heimsvísitalan hækkað hægt og bítandi en hækkun er um 10% ef miðað er við lággildi í 210. Tilgangurinn með því að sýna heimsvísitöluna á mynd 5 er að draga skýrt fram að nú eru allir helstu þættir alþjóðlegs hlutabréfamarkaðs að hækka saman í takt. Eftir mikla lækkun á síðari hluta ársins 2011 (og lækkun í Asíu og í Brasilíu allt frá árinu 2010 og jafnvel 2009) eru hlutabréf á góðu verði og því eftirsóknarverð í augum fjárfesta.

Í glugga ofan við vikukortið og tveimur gluggum neðan við það er að finna hlutfallslegan styrk Evrópu, Bandaríkjanna og Asíu gagnvart heimsvísitölu. Lóðrétta punktalínan er dregin til að sýna hugsanlegan snúning á fyrstu dögum 2012 (fyrr í tilviki Bandaríkjanna og Asíu). Hlutabréf í Evrópu hafa styrkst hlutfallslega og hlutabréf frá Asíu líka en á móti hefur S&P 500 á Wall Street aðeins veikst hlutfallslega – jafnvel þótt allar hafi vísitölurnar hækkað á árinu 2012. Á næstunni munum við fylgjast grannt með hvernig svæðavísitölunum reiðir af; þar mun felast vísbending um það hvenær núverandi hækkunarleggur gufar upp og nær ekki lengra.

Loks má benda á að heimsvísitalan hefur ekki náð að rífa sig yfir hágildi frá október 2011. Það hafa margar af sterkustu vísitölum gert nú þegar og því verður að teljast líklegra en ekki að heimsvísitala, meðaltal meðaltalanna, fylgi á eftir. Hvort svo verður kemur í ljós á allra næstu dögum, í fimmtu eða sjöttu viku ársins 2012.

 


Lagalegur fyrirvari

  • Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Upplýsingarnar fela ekki í sér ráðgjöf um fjármál einstaklinga eða fjárfestingaráðgjöf. Lesa allan fyrirvarann